laugardagur, júní 04, 2011

Aftur af stað?

Vegna fjölda áskorana (einkum innan fjölskyldunnar) er ég búin að virkja þetta blogg aftur. Sjáum hvað gerist ;)

föstudagur, október 13, 2006

Hef opnað nýjan vef

Endilega kíkið við á nýja vefsvæðið mitt!

www.katrinjul.is

fimmtudagur, september 21, 2006

Gef kost á mér í 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi!

Ákveðið hefur verið að velja á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi með stuðningsmannaprófkjöri þann 4.nóvember n.k. Fyrirsjáanlegar eru þónokkrar mannabreytingar þar sem leiðtogar jafnaðarmanna til margra ára hér í kjördæminu þau Guðmundur Árni Stefánsson og Rannveig Guðmundsdóttir gefa ekki kost á sér til setu á Alþingi að nýju.

Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti framboðslistans fyrir næstu alþingiskosningar. Ég hef setið á Alþingi síðan 2003. Fram að þeim tíma hafði ég sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innan jafnaðarmannahreyfingarinnar. Sat m.a. í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar á árunum 2000 – 2003 þar af sem varaformaður frá 2001-2003 og var formaður Ungra jafnaðarmanna – ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar 2000-2001. Auk þessa sat ég í stjórn Evrópusamtakanna um nokkurra ára skeið, sat í háskóla- og stúdentaráði fyrir Röskvu frá 1997 til 1999 og starfaði sem framkvæmdastjóri stúdentaráðs 1998 – 1999. Áður en ég hóf störf á Alþingi starfaði ég sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá hugbúnaðarhúsinu Innn hf. um þriggja ára skeið. Áður hafði ég starfað sem innkaupastjóri og síðar framkvæmdastjóri hjá heildverslun í verslunarrekstri.

Í störfum mínum á Alþingi hef ég barist fyrir bættum lífskjörum barnafjölskyldna sem núverandi ríkisstjórn hefur markvisst rýrt á undanförnum árum. Ég hef barist fyrir bættum kjörum eldri borgara, námsmanna og öryrkja. Ég hef barist fyrir kröftugri uppbyggingu í menntakerfinu. Ég hef barist fyrir auðlindum í þjóðareign. Ég hef barist fyrir aukinni samvinnu við Evrópu með fulla aðild að ESB í huga. Þá hef ég barist gegn vaxandi misskiptingu sem birtist í misskiptum kaupmætti og misskiptum skattalækkunum, þar sem þeir allra tekjuhæstu hafa fengið allra mest. Þessari misskiptingu verður að linna. Ég býð fram krafta mína til áframhaldandi starfa í baráttu okkar jafnaðarmanna fyrir sanngjörnu og góðu samfélagi.

þriðjudagur, september 12, 2006

Billegar yfirlýsingar og misskipting

Ég var í viðtali í Íslandi í bítíð í gær með Guðlaugi Þór Þórðarsyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Guðlaugur er einn þeirra sjalla sem trúir í blindni á þá hugmynd að ef lygi er sögð nógu oft verði hún sönn. Þannig hélt hann því fram (og það ekki í fyrsta sinn) að ef stjórnarandstöðuflokkarnir tækju hér við landsstjórninni eftir næstu kosningar þýddi það skattahækkanir og óstjórn í efnhagsmálum. Þetta er í besta falli hlægileg staðhæfing í ljósi þess að sýnt hefur verið framá að skattbyrði hefur verið aukin svo um munar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eini hópurinn sem ekki hefur fengið hækkaða skattbyrði heldur lækkaða er 10%-in sem hæstar hafa tekjurnar. Þetta hefur verið staðfest í svari frá fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur í þinginu. Sjá svarið hér

Varðandi óstjórn í efnahagsmálum. Þá er Guðlaugur Þór á ansi hálum ís að halda því fram að önnur ríkisstjórn en sú sem nú situr myndi kalla yfir okkur óstjórn í efnhagsmálum. Þetta segir Guðlaugur á sama tíma og viðskiptahallinn er að slá hvert metið á fætur öðru (væri vert að kanna hvort ekki sé um heimsmet að ræða) og er hann sá hæsti innan OECD ríkjanna. Hér er bullandi verðbólga sem hefur hrikaleg áhrif á húsnæðislánin sem bólgna nú út vegna verðtryggingarinnar á meðan lítil hreyfing er á fasteignum og fasteignaverði. Krónunni hefur verið líkt við korktappa úti á ólgusjó og hafa sveiflurnar farið í 40% - það þarf ekki að fara yfir það hvað þetta þýðir fyrir útflutningsgreinarnar og vöruverð í landinu. Svona er hægt að halda endalaust áfram í yfirferð yfir afleiðingar efnhagsstjórnar ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks: allsstaðar blasa mistökin við. Af mistökunum súpa Íslendingar nú seyðið og greiða m.a. fjórum sinnum hærri vexti en í Evrópu og tugum prósenta hærra verð fyrir nauðsynjavörur auk þess að horfa nú á eign sína í íbúðarhúsnæði sínu skreppa saman dag frá degi - ævisparnaður unga fólksins sem það hefur lagt í húsnæði minnkar dag frá degi.

Hægt að lækka matarverð á morgun
Merkilegt fannst mér líka hvað Guðlaugur var brattur þegar hann lýsti því yfir að ekkert mál væri að lækka matarverð á morgun. Voru þetta viðbrögð hans við því að ég var að ræða um stórlækkun matarverðs í Svíþjóð eftir að svíar gengu inn í ESB. Í hvaða flokki hefur Guðlaugur eiginlega verið? Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað landinu í bráðum 12 ár með Framsóknarflokknum og ekki hreyft litla fingur til að lækka matarverð hér á landi. Þessir flokkar hafa haft alla möguleika í hendi sér að lækka matarverðið en ekki gert það. Lofaði ekki Sjálfstæðisflokkurinn því að lækka matarskattinn á þessu kjörtímabili – það loforð hefur ekki verið efnt. Í ljósi þessa finnast mér yfirlýsingar hans billegar og bera það eina merki að Guðlaugur sé á leið í prófkjör – engin merki eru nefnilega á lofti um að þessi ríkisstjórn muni standa fyrir aðgerðum til lækkunar á matarverði nú frekar en fyrri daginn.

Ekki vil ég nú bara draga fram neikvæðar hliðar viðtalsins því eitt sagði Guðlaugur Þór sem má hrósa honum fyrir og það er að hann tók undir það að hér á landi væri misskipting og sagði: "Það liggur alveg fyrir að það er misskipting" – og jánkaði því auðvitað að enda væri Sjálfstæðisflokkurinn ekki jafnaðarmannaflokkur.

"Velferðarstjórn" Framsóknarflokksins

Á nýliðnu flokksþingi Framsóknarflokksins hélt Halldór Ásgrímsson sína síðustu yfirlitsræðu sem formaður þess flokks. Orð sem hann lét þar falla hafa staðið nokkuð í mér. Í ræðunni fullyrti Halldór nefnilega að velferðarstjórn væri réttnefni á stjórnarsamstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Ekki veit ég hvort Halldór hafi verið að slá á létta strengi svona í lok ferils síns eða hvort framsóknarmenn séu svona illa haldnir af ranghugmyndum því ekki hafa verk ríkisstjórnarinnar gefið til kynna að þar fari velferðarstjórn. Hið síðara er öllu verra því það gefur okkur fyrirheit um það sem koma skal haldi samstarf þessara flokka áfram – fyrirheit um áframhaldandi misskiptingu.

Velferð hinna fáu
Mér þykir illa farið með hugtakið velferðarstjórn þegar það er notað í samhengi við ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks því aldrei hefur ójöfnuðurinn verið meiri í íslensku samfélagi en einmitt nú eftir áralanga stjórnarsetu þessara flokka eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað bent á. Eftir þessa ríkisstjórn stendur nefnilega samfélag þar sem ójöfnuðurinn er orðinn hrópandi og getur ekki dulist nokkrum manni. Afleiðingar stjórnvaldsaðgerða þessarar ríkisstjórnar bera ekki velferðarstjórn nokkuð vitni nema þá kannski velferð hinna fáu.

Misskiptingarstjórnin
Eftir þessa ríkisstjórn stendur misskipting – misskiptingarstjórn er því réttnefni yfir þessa ríkisstjórn. Misskiptingunni hefur að stórum hluta verið stýrt í gegnum skattkerfið en með markvissum aðgerðum hefur ríkisstjórnin lækkað skatta á þá sem hafa allra hæstu tekjurnar á meðan skattbyrði á hin 90% heimilanna í landinu hefur hækkað – þá allra mest hjá hinum tekjulægstu. Þessar upplýsingar liggja allar fyrir. Þá hafa vaxtabætur og barnabætur verið skertar á sama tíma. Þetta þýðir að sú aukning kaupmáttar sem ríkisstjórnin hefur barið sér á brjóst fyrir hefur misskipst þannig að aukningin er 27% hjá lágtekjuhópunum - jafnvel enn lægri á lífeyrisþegum- en 78% hjá þeim allra tekjuhæstu. Þetta eru ekki ummerki velferðarstjórnar heldur misskiptingarstjórnar.

Tvöfalt heilbrigðiskerfi
Afleiðingar verka þessarar ríkisstjórnar misskiptingar koma harkalega niður á fjölskyldum í landinu. Aldrei hefur verið jafn dýrt að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Og nú er verðbólgan í tæpum 9% vegna efnahagsmistaka þessarar ríkisstjórnar. Unga fólkið sem öllu var lofað fyrir síðustu kosningar horfir því uppá húsnæðislánin bólgna út dag frá degi með tilheyrandi lífskjararýrnun. Vextir eru margfalt hærri hér en í nágrannalöndunum og verðlag á nauðsynjavörum er tugum prósenta hærri hér en í nágrannalöndunum eftir 11 ára stjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Stór hluti eldri borgara og öryrkjar þurfa að lifa á skammarlega lágum launum sem í ofanálag þeir þurfa að greiða skatt af vegna þess að misskiptingastjórnin frysti skattleysismörkin á meðan hún lækkaði skattana á þá sem hafa allra hæstu tekjurnar í landinu. Og nú hefur ríkisstjórnin með Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar staðfest með reglugerð vísi að tvöföldu heilbrigðiskerfi. Því nú eru hjartalæknar utan samninga og geta sjúklingar borgað sig framfyrir og sloppið við tafsamt tilvísanakerfi hafi þeir efni á því. Þetta eru ekki ummerki velferðarstjórnar heldur misskiptingarstjórnar.

Af þessu er ljóst að Framsóknarflokkurinn er stefnulaust rekald og alls ekki til þess bær að vera við stjórnvölinn áfram.


Greinin birtist í Blaðinu í dag

miðvikudagur, júní 14, 2006

Að flýja sökkvandi skip

Mannabreytingar hjá hægri stjórninni sem nú situr sitt þriðja og vonandi síðasta kjörtímabil hafa verið afar tíðar að undanförnu. Má segja að flótti sé brostinn á liðið. Þeir flýja sökkvandi skip einsog rottunar forðum, enda ekki að undra. Fátt annað blasir við fleyinu en botninn. Steininn tók úr þegar formaður Framsóknar elti Árna krónprins. Nú vinna þeir bráðum báðir í banka. Halldór í seðla og Árni í alvöru.
Á meðan þessar breytingar allar hafa átt sér stað hefur ríkisstjórnin gerst sek um mikla vanrækslu við stjórn landsins sem birtist nú í hækkandi verðbólgu og óskýrri framtíð fjölmargra lykilstofnana. Þessi ríkisstjórn hefur sýnt það aftur og aftur að hún situr ekki til að gera þjóðfélaginu gagn heldur snýst hún eingöngu í kringum sjálfa sig og völdin. Og við borgum síðan brúsann eftir þetta tilgangslausa brölt. Almannahagsmunir eru fyrir borð bornir enda stólar handa fimm prósent Framókn málið. Helmingaskipti um bitlinga og völd. Út á það gengur hægri stjórnin.

Frekari ráðherrabreytingar í ágúst?
Á síðustu þremur árum hafa verið hér fjórir utanríkisráðherra, þrír forsætis-, umhverfis-, og félagsmálaráðherrar, tveir fjármála-, iðnaðar- og viðskipta-, heilbrigðis- og trygginga-, menntamála-, og sjávarútvegsráðherrar. Í slíkum hringlanda er ekki hægt að gera ráð fyrir því að mikið verk vinnist og sjáum við þess nú merki víða í samfélaginu að hér hefur ekki verið stöðug stjórn á mikilvægum málum. Nú hefur Framsóknarflokkurinn ákveðið að kosin verði ný forysta í ágúst. Valgerður Sverrisdóttir sem tekur senn við ráðuneyti utanríkismála hefur líst því yfir að hún sækist ekki eftir formennsku í flokknum. Því má gera ráð fyrir að nýr formaður muni falast eftir utanríkisráðherrasætinu eða trúir einhver að Guðni muni sitja áfram í landbúnaðarráðuneytinu og láta Valgerði utanríkismálin eftir ef hann verður kjörinn formaður í ágúst? Nei, hver sá sem kjörinn verður mun vilja setjast í stól utanríkisráðherra og því tel ég nokkuð ljóst að enn verði hrókerað í ágúst og að fimmti utanríkisráðherrann á kjörtímabilinu taki við. Sem hlýtur að slá allnokkur met!

Stórir hópar súpa seyðið af vanrækslunni
Á meðan ríkisstjórnin snýst í kringum sjálfa sig þá er verðbólgan hér á bullandi siglingu uppávið. Stórir hópar súpa nú seyðið af hringlandanum í ríkisstjórninni. Fjölskyldur þessa lands sem eru með miklar skuldir vegna húsnæðislána súpa seyðið af þessari vanrækslu í gegnum verðtrygginguna. Lánin bólgna út og verðbólgan étur upp eignir þessa fólks. Þessi ríkisstjórn hefur ekki sinnt efnahagsmálunum og því er nú svona komið. Eldri borgarar súpa seyðið af aðgerðaleysi þessarar ríkistjórnar og er stór hópur þeirra fastur í fátæktargildru tryggingakerfisins. Hækkuð skattbyrði og frosin skattleysismörk hafa komið harkalega niður á eldri borgurum. Þessi ríkisstjórn vinnur ekki fyrir fólkið í landinu en hikar ekki við að halda því fram að hér ríki stöðugleiki og að skattbyrði allra hópa hafi lækkað! Þetta eru hrein og klár ósannindi sem þessir hópar finna glöggt á eigin skinni.

Ærin verkefni jafnaðarmanna
Verkefnin sem bíða okkar jafnaðarmanna eftir næstu kosningar eru ærin eins og formaður Samfylkingarinnar fór yfir í ræðu á flokkstjórnarfundi okkar um helgina. Skora ég á alla þá sem finna fyrir þessari vanrækslu ríkisstjórnarinnar á eigin skinni að koma með okkur í það mikilvæga verkefni byrja að byggja upp raunverulegan stöðugleika og jöfnuð. Það er kominn tími til að gefa þessari ríkisstjórn frí því hún er gjörsamlega þrotin af kröftum og hugmyndum. Eini valkosturinn er öflug Samfylking. Annars situr valdabandalag hægri flokkanna áfram. Og áfram.

fimmtudagur, maí 25, 2006

Klaufalegar eftirlíkingar sjálfstæðismanna!

Fyrir þessar kosningar vilja allir flokkar vera vera jafnaðarmenn. Meira að segja svartasta íhaldið er orðið bleikt og farið að reyna að selja sig sem flokk sem skilur mikilvægi ýmissa samfélagslegra verkefna. Öðruvísi mér áður brá! En kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins verða seint kölluð annað en klaufalegar eftirlíkingar úr stefnu okkar jafnaðarmanna, jafnvel skrumskælingar. Það er svo skrítið hvað hægrimennirnir verða alltaf hlægilegir þegar þeir korteri fyrir kosningar gerast sósíalistar. Eitthvað svo raunarlega trist við það. Meira að segja svartasta íhaldið yst af hægri kantinum ramblar upp úr rullunni einsog gamall Maóisti.

Jafnaðarmenn byggðu upp leikskólana
Þessi staðreynd kristallast best í loforðum Sjálfstæðisflokksins í málefnum leikskólans. Það er nefnilega staðreynd að það vorum við jafnaðarmenn sem bjuggum leikskólastigið til. Næsta verkefni er að gera leikskólann gjaldfrjálsan og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans. Tillögum okkar um gjaldfrjálsan leikskóla svarar íhaldið með loforðum um afslætti. Tillögum okkar um hvernig brúa á bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla svarar íhaldið með vöggustofum.

Gjaldfrelsi vs. afsláttur
Auðvitað er ekki hægt að taka íhaldið alvarlega í þessum efnum því stutt er síðan sjálfstæðismenn vildu frekar senda konur heim með börnin og nokkrar krónur frá sveitarfélaginu en að stofna leikskóla. Samfylkingin hefur unnið að eflingu leikskólastigsins af heilum hug frá því að Reykjavíkurlistinn tók við rústunum í Reykjavík. Árangurinn blasir við okkur en enn er verk að vinna. Nú ætlar Samfylkingin um allt land að gera leikskólann gjaldfrjálsan því það er ekkert réttlæti í því að borgað sé miklu meira í skólagjöld með litlu börnunum en gert er í einkareknum háskólum landsins. Afslættir sjálfstæðismanna eru einungis klaufaleg eftirlíking.

Felldu tillögu um lækkun leikskólagjalda
Að hlusta á sjálfstæðismenn fara í gervi jafnaðarmanna í kosningabaráttunni er samt dáldið krúttlegt á köflum því svo klaufalegt er það. Í mínum heimabæ Kópavogi hefur Sjálfstæðisflokkurinn kúvent í stefnu sinni í málefnum leikskólanna og lofar m.a. afslætti af skólagjöldum. Hljómar það eins og lygasaga í ljósi þess að einungis eru nokkrir mánuðir síðan að sjálfstæðis- og framsóknarmenn felldu tillögu Samfylkingarinnar um lækkun leikskólagjalda í Kópavogi. Og stutt er síðan að Gunnar Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi hellti sér yfir borgarstjórann í Reykjavík fyrir að hækka laun leikskólastarfsmanna og fullyrti að við það myndi efnahagslífið fara á hliðina!

Vöggustofur eru úreld gæsluúrræði
Kosningaloforð sjálfstæðismanna um vöggustofurnar er algjört met. Líklega eiga þeir við það sem við jafnaðarmenn köllum ungbarnadeildir á leikskólum. Við samfylkingarfólk höfum lengi barist fyrir öruggum dagvistunarúrræðum fyrir yngstu börnin og eru vöggustofur svar íhaldsins við því nú fyrir þessar kosningar. Hvaðan hugmyndin að vöggustofum íhaldsins er komin skal ósagt látið en um vöggustofur er fjallað í Atómstöðinni eftir Nóbelsskáldið og segir Búi Árland í bókinni góðu þegar kallað er eftir vöggustofu: „Æjá því miður erum við á móti kommúnisma.“ Vöggustofur íhaldsins nú árið 2006 eru nefnilega gamalt gæsluúrræði kennt við kommúnista frá því snemma á síðustu öld og eiga lítið skylt við nútímadagvistunarúrræði.

Ég hvet kjósendur til að kjósa Samfylkinguna en ekki skrumskælda eftirlíkingu!

föstudagur, febrúar 24, 2006

Ísland í ESB!

- grein birtist í Blaðinu 24.febrúar 2006

Mikið þótti mér spádómur Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra ágætur þegar hann spáði því fyrir skömmu að Ísland yrði orðinn fullgildur aðili innan Evrópusambandsins árið 2015. Hefði ég ekki trúað því fram að þessu að framtíðarsýn framsóknarmanns hugnaðist mér svo að við mér hreyfði. Gárungar hafa slegið því fram að með þessu hafi formaður Framsóknarflokksins verið að spá góðu gengi Samfylkingarinnar í stjórnmálum á næstu árum og forystu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Undir þetta er hægt að taka vegna þess að Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu á sinni stefnuskrá.

Lægra matarverð – bætt lífskjör
Aðild okkar að Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu yrði íslenskri þjóð til mikilla heilla og myndi bæta lífskjör hér á landi verulega. Fyrir því eru margar ástæður og ein þeirra sem vegur þyngst er lækkun á verði nauðsynjavara. Matarverð á Íslandi er mjög hátt eins og ítrekað hefur verið dregið fram í dagsljósið af ýmsum aðilum á undanförnum árum, þá ekki síst í skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðherra að beiðni Rannveigar Guðmundsdóttur þingmanns Samfylkingarinnar fyrir nokkrum misserum. Matarverð hér er miklu mun hærra en í ríkjum Evrópusambandsins og greiðum við 42% hærra verð fyrir mat en Evrópuþjóðir gera að meðaltali samkvæmt nýlegri norrænni könnun. Það er samhengi á milli matarverðs og aðildar að Evrópusambandinu ef þróun matarverðs í t.d. Svíþjóð er skoðað fyrir og eftir aðild. Svíar greiddu helmingi hærra verð fyrir matvöru áður en þeir gengu í Evrópusambandið en þeir gera nú. Slík lækkun á matvöru gæti því haft stórkostleg áhrif til bættra lífskjara fjölskyldna hér á landi

Lægri vextir
Spurningin um aðild okkar að Evrópusambandinu og myntbandalaginu er nefnilega spurning um lífskjör. Íslenska krónan sveiflast með slíkum látum að ekki verður mikið lengur við það unað þar sem það hefur veruleg áhrif á fólk og fyrirtæki. Fyrirtæki í útflutningi hafa sviðið á undanförnum árum undan gengissveiflunni og hefur hún haft veruleg áhrif á afkomu margra fyrirtækja s.s. í sjávarútvegi og þekkingariðnaði. Hætta er á að störf í þessum greinum flytjist í auknum mæli til útlanda sem mun stefna fjölbreyttum atvinnutækifærum okkar hér á landi í hættu. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar fer yfir það í yfirgripsmikilli grein á vefsíðu sinni frá 9.janúar s.l. hvernig vextir myndu lækka hér á landi við inngöngu, starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja batna og kjör neytenda stórbatna vegna aukinnar samkeppni svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru allt þættir sem stjórnmálamenn þurfa að ræða í samhengi við hugsanlega aðild að Evrópusambandinu því það er alveg ljóst að full aðild með upptöku evru getur fært okkur langþráðan stöðugleika og aukna velsæld.

Tökum umræðuna af krafti
Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er að mínu mati sú mikilvægasta í okkar samtíma. Evrópuumræðan þarf nú að fara fram af krafti á næstu misserum. Það eru margar knýjandi spurningar sem við verðum að svara í þeim efnum því við getum ekki haldið áfram að stinga höfðinu í sandinn og látið telja okkur trú um að við eigum ekkert erindi inn í Evrópusambandið eins og Sjálfstæðismenn með stuðningi Framsóknarmanna hafa komist upp með alltof lengi. Of miklir hagsmunir eru í húfi.