þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Einkasonurinn á leið í skóla

Rosalega líður tíminn hratt. Mér finnst svo stutt síðan að Júlíus var kornabarn og nú er hann að byrja í Snælandsskóla 22.ágúst. Fórum því í dag og keyptum skólatösku og aðrar nauðsynjar fyrir skólagöngu 6 ára barns. Úff það kostaði sitt en litli kútur var svo glaður með dótið sitt að brosið hans og sönglið gerði þetta vel þess virði. Hann er rosalega spenntur að byrja þó að mamman sé dáldið kvíðin - hann er jú lillinn minn!. Þetta eru merkileg tímamót í sögu okkar litlu fjölskyldu þannig að þessi mánuður mun án efa varðveitast í minningunni sem skólamánuðurinn mikli.

Júlíus byrjaði aftur í fótboltaskóla HK í morgun. Þegar ég var búin að fylgja honum í Fagralundinn í Fossvoginum fór ég og hljóp einn hring í Fossvogsdalnum. Það var alveg frábært þrátt fyrir grenjandi rigningu. Kom heim rennandi blaut en ótrúlega fersk. Hlaupin eru liður í átakinu sem ég er búin að vera í síðustu mánuði. Átakið gengur vel og finnur maður það ótrúlega fljótt hversu vel gott mataræði og fjölbreytt hreyfing skilar sér á líkama og ekki síður sál. Seinnipartinn fór ég í ræktina og hitti þjálfara sem fór með mér yfir stöðuna og kenndi mér fleiri æfingar í tækjum. Það var mjög gott og uppörvandi að hitta fagmann á þessu sviði og bæta þannig við þekkinguna. Mæli hiklaust með þessu!

Tókum síðan rólegt kvöld mæðgin og fórum snemma að sofa enda langur dagur framundan í vinnu og fótbolta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home