laugardagur, ágúst 06, 2005

Fáránleg skömmtun réttinda til samkynhneigðra

Við Júlíus erum að fara í Gay Pride gönguna á eftir. Við erum voða spennt enda er þetta rosalega flott ganga og mjög skemmtilegt að upplifa. Mér finnst óvenju mikil umræða hafa orðið í aðrdraganda Gay Pride í ár um réttarstöðu samkynhneigðra í íslensku samfélagi. Því ber að fagna. Ég held að beitt grein Baldurs Þórhallssonar sem hann birti á vefritinum Sellan s.l. fimmtudag spili þar stóra rullu. Ég hvet alla til að lesa þessa grein. Mér hefur alltaf fundist afar undarlegt að samkynhneigðir njóti ekki sömu réttinda og gagnkynhneigðir. Samfélaginu er stýrt af gagnkynhneigðu fólki sem hefur hingað til gefið sér það að samkynhneigðir séu síðri uppalendur en gagnkynhneigðir. Þetta hefur birst í því að samkynhneigð pör mega ekki frumættleiða. Einstæðir mega það en ekki samkynhneigð pör. Samkynhneigð pör mega heldur ekki fara í tæknifrjóvgun til þess að geta barn - heldur verða að leita út fyrir landssteinana.

Samkynhneigð pör eru alveg jafnfær og einstæðir og gagnkynhneigð pör til þess að ala upp börn í okkar samfélagi. Að halda öðru fram eru fordómar af verstu sort. Grundvallaratriði er að börnin okkar fái að alast upp á öruggum og hlýjum heimilum og þá skiptir ekki máli hvernig samsetning fjölskyldunnar er. Borist hafa fregnir af því að nú ætli ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp/frumvörp nú á komandi haustþingi sem bæta eigi réttarstöðu samkynhneigðra. Samkvæmt fréttum ætlar ríkisstjórnin þó ekki að ganga alla leið og veita samkynhneigðum pörum sama rétta og öðrum. Það hryggði mig að heyra því ég tel ekki nokkur rök á bakvið það að veita sjálfsögð réttindi í smáskömmtum eins og verið sé að gera einhverja greiða og sýna vald sitt. Þannig hefur það verið hingað til - samkynhneigðum hafa verið skömmtuð réttindi úr hnefa þeirra sem með völdin fara. Þannig er illa farið með völdin og ekki frjálslyndu lýðræðisríki til sóma. Ég vona því að nú sé sá tími kominn að gengið verði alla leið í eitt skipti fyrir öll og vona að sú ríkisstjórn sem nú situr muni gera það. Réttindabarátta samkynhneigðra á minn stuðning heilann (get fullyrt að það sama eigi við um allan þingflokk Samfylkingarinnar) og mun ég leggja mig fram um að ná fram þeim sjálfsagða hlut að samkynhneigð pör hafi sama rétt og einstæðir og gagnkynhneigð pör!

Annars erum við Júlíus búin að eiga góða viku. Júlíus var í fótboltanum hjá HK hálfan daginn og þvældist síðan með mér eða lék við vini sína. Ég vann, setti upp þetta ágætis blogg, heimsótti vini, barðist við tölvuvírus, fór í ræktina, út að hlaupa og í strípur. Að fara í strípur er alltaf dálítið event fyrir mig bæði því ég fer alltof sjaldan (var orðin gulhærð núna) en þó aðallega vegna þess að hárgreiðslukonan er einnig ein mín besta og elsta vinkona Berglind Bragadóttir. Við Berglind eigum 21 árs vinkonuafmæli í september og hefur vináttan milli okkar alltaf verið sterk og einlæg. Við kynntumst fyrsta daginn okkar í 10 ára bekk í Snælandsskóla í Kópavogi en við vorum þá báðar nýjar í skólanum. Við höfum fylgst að allar götur síðan ásamt fleiri vinkonum sem bættust í hópinn í Menntaskólanum í Kópavogi. Við Berglind ætlum því að fagna þessum áfanga með því að fara grand út að borða og kannski eitthvað fleira í byrjun september. Halda uppá þennan merka áfanga. Ég hlakka óskaplega til enda ef tilefni er til að fagna einhverju þá er það góð vinátta!!

Eitt skemmtilegt atvik stendur einnig uppúr þessari viku. Ég mælti mér mót við minn gamla vin og félaga Hrein (útleggst á ensku: Mr.Fred) á Kaffitári í Bankastræti á fimmtudagsmorguninn klukkan 09.00. Ég hef ekki komið þangað síðan ég hætti að drekka kaffi fyrir einu og hálfu ári. Mikið rosalega var gaman þar í morgunkaffi. Staðurinn var eins og umferðamiðstöð. Allskyns fólk að sækja sér kaffi til að taka með á leið í vinnuna - mér leið einsog ég væri stödd í stórborg. Og það besta var að það sást ekki stress á neinum - var reglulega góður andi þarna. Ég hitti fjölmarga kunningja og lenti í skemmtilegum samtölum. (hitti meira að segja bæði Mörtu og Krísu þann klukkutíma sem ég sat þar - hverjar eru líkurnar?:))
Hvet alla til að skella sér í gönguna á eftir. Hún byrjar klukkan 15.00 við Hlemm.



1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Kata mín, það þýðir ekki að opna bloggsíðu og blogga svo ekki neitt. Bíð spennt eftir næstu færslu. Kveðja, MM

15/8/05 09:36  

Skrifa ummæli

<< Home