miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Cherie Blair - Þórsmörk - Veikindi

Fór og hlustaði á Cherie Blair á mánudagsmorguninn þar sem hún var að fjalla um stöðu og réttindi/réttindabaráttu kvenna í veröldinni á ráðstefnu menningarmálaráðherra af kvenkyni. Hún var auðvitað alveg frábær og var erindi hennar mjög áhugavert og til fyrirmyndar hvernig það var fram sett. Ég ætla nú ekki að endurtaka það hér enda hefur því verið gerð góð skil í fjölmiðlum undanfarna daga. En ég get ekki annað en skrifað nokkur orð um hversu heppnar við konur erum að eiga svona frábæran talsmann fyrir réttindum okkar. En hún hefur lengi barist fyrir bættum kjörum kvenna um heim allan og þegar hún flutti sitt erindi sá maður að hversu nærri hennar hjarta þessi mál standa.

Saga konu af heimilisofbeldi
Hún hefur í heimalandi sínu, Bretlandi, lengi barist gegn heimilisofbeldi og verið í fararbroddi samtaka sem vinna gegn heimilisofbeldi. Vorið 2001 fór ég ásamt félögum mínum Björgvini G. Sigurðssyni og Hreini Hreinssyni til London til að taka þátt í kosningabaráttu Verkamannaflokksins. Þrömmuðum við húsa á milli í kjördæmi sem heitir Fulham/Hammersmith í London í nokkra daga með boðskapinn (og bjagaðan breskan hreim). Ein heimsókn er mér afar eftirminnileg en við höfðum skipt okkur og fórum milli húsa og bönkuðum uppá til að hvetja fólk til að fara út og kjósa. Kem ég að húsi einu og banka - til dyra kemur kona sem þarf að styðja sig við tvær hækjur og mátti strax sjá að þarna var kona sem hafði lent í einhverju hræðilegu á ævi sinni því utan þess að styðjast við hækjur var hún alsett sýnilegum örum. Hún bauð mér inn og sagði mér sögu sína. Hún hafði verið gift manni sem beitti hana skelfilegu ofbeldi. Hún hafði reynt að leita til yfirvalda og fá hjálp en fékk ekki og var alltaf send heim og sagt að reyna að laga hjónabandið. Í örvæntingu sinni leitaði hún eitt sinn til þingmannsins síns sem þá var úr breska íhaldsflokknum og bað hann um aðstoð við að komast frá ofbeldisfullum manni sínum. Þessi ferð sagði hún að hafi verið ein mesta niðurlægingarferð sem hún hafi farið. Þingmaðurinn sendi hana heim og sagði að hann gæti ekkert gert - þetta væri mál sem þyrfti að leysa innan veggja heimilisins! Eftir áralangar barsmíðar lamdi eiginmaður þessarar konu hana svo illa að hún lenti þungt haldin á sjúkrahúsi og hefur stuðst við hækjur síðan þar sem hún mölbrotnaði og varð alvarlega fötluð í kjölfarið. Ég stóð inni hjá konunni og barðist við tárin og reiðina sem blossar uppí manni við að heyra af svona ömurlegum örlögum sem hefði verið hægt að grípa inní hefði einhver hlustað. Alltof algengt. Síðan sagði hún mér hversu margt hefði breyst í hennar lífi eftir að Verkamannaflokkurinn tók við. Fyrir hana sem fórnarlamb heimilisofbeldis hafði líf hennar tekið stakkaskiptum fjárhagslega og andlega þar sem hún fær nú mikinn stuðning. Allt þetta þakkaði hún Cherie Blair sem hún sagði að hefði lyft umræðunni um heimilisofbeldi uppá annað stig - stig þar sem tekið er mark á konum sem fyrir því verða. Hún sagði mér síðan frá því hvernig Cherie Blair hefði unnið gegn heimilisofbeldi og þakkaði henni það að umræðan færi nú fram fyrir opnum tjöldum og hægt væri að leita sér aðstoðar og stuðnings. Hún þakkaði henni þó aðallega að stjórnmálin væru nú farin að fjalla um heimilisofbeldi sem samfélagslegan vanda ekki vanda heimilanna sjálfra.

Ég hafði ekki velt Cherie Blair mikið fyrir mér fram að þessari heimsókn - var einlægur aðdáandi manns hennar. En uppfrá þessari heimsókn fékk ég algerlega nýja sýn á þessa merku konu og hef verið einlægur aðdáandi hennar sjálfrar og tel að maður hennar væri ekki mikið án hennar! Örlát kona með hjartað á réttum stað.

Þórsmörk
Fór í aldeilis frábæra ferð í Þórsmörk á laugardaginn síðasta. Tilefnið var árleg sumarferð Samfylkingarinnar. Fengum alveg dásamlegt veður - sól og blíða - frá því við lögðum af stað klukkan átta um morguninn og þar til við komum í bæinn um klukkan tíu um kvöldið. Ég hef aldrei séð Þórsmörkina í svo fallegu veðri. En svo mikil stilla var að þegar við komum akandi að Seljalandsfossi sáum við inní Vestmannaeyjabæ og það var eins og land og eyjar væru eitt því sjórinn var alveg spegilsléttur. Okkur leið eins og við gætum keyrt yfir. Milli þrjú- og fjögurhundruð manns fóru í ferðina og fylltum við átta rútur. Þetta var alger úrvalsfélagsskapur. Farið var í gönguferðir, grillað og brugðið á leik. Eins og sjá má af þessum skrifum er ég enn í skýjunum yfir ferðinni. SJÁ MYNDIR....

Veikindi

Júlíus fór loksins í skólann í morgun en hann er búinn að liggja veikur síðan s.l. miðvikudag. Hann fór í skólann þann dag, sem var fyrsti dagurinn hans en lagðist í magapest um kvöldið. Greyið var ferlega spældur að missa af 4 dögum í byrjun skólagöngunnar og var því himinlifandi að hitta vinina í morgun. Þetta var engin smápest sem olli því að litla flísin missti 10% af líkamsþyngd sinni! Við enduðum síðan á sjúkrahúsi á sunnudaginn þar sem hann þurfti að fá vökva í æð þar sem hann var orðinn alveg þurr og tómur því hann hélt engu niðri. En hann er orðinn eldhress núna og hans aðalvandamál er histerísk móðir hans sem er endalaust að reyna að troða ofan í hann mat!

Hafði aldrei áður komið á barnaspítalann og verð að segja að það sem ég sá af honum er stórglæsilegt. Fallegt og þægilegt umhverfi og úrvalsþjónusta við yngstu borgarana. Vil því nota þetta tækifæri og þakka hjartanlega fyrir okkur!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home