sunnudagur, september 04, 2005

Bling Bling sigur í KUBB

Tók þátt í Íslandsmótinu í KUBB sem haldið var í Borgarnesi í gær (laugardag). Fengum frábært veður, sól og blíðu allan tímann. Um 20 lið mættu til leiks og var mikið fjör. Ég hef áður tekið þátt í svona mótum en þetta mót var af þeim alveg einstakt því í fyrsta sinn voru veittar viðurkenningar fyrir flottustu búningana, skemmtilegasta liðið, glyðrur mótsins, mesta 101 liðið, lang óheppnasta liðið og skemmtilegasta liðið. Flest liðin mættu því í afar metnaðarfullum búningum og var gaman að horfa yfir hópinn sem var ýmist klæddur eins og víkingar, glimmerstráð samkvæmispör, rapparar, póló-snyrtimenni og fleira skemmtilegt. Liðið mitt "Í rauðum sokkum" var eina hreina kvennaliðið í keppninni og vorum við klæddar í anda kvenna í frönsku andspyrnuhreyfingunni. Ég verð að segja að þessi nýjung setti skemmtilegan brag á keppnina í ár. Einnig var brugðið á leik og víkingarnir í hópnum settu margt skemmtilegt á svið fyrir okkur.

Liðið Bling Bling vann mótið í ár með miklum glæsibrag eftir spennandi úrslitarimmu við KOMATSU sem þau hjónin Hreinn Hreinsson og Halldóra Gunnarsdóttir skipa. Mínu liði gekk svona lala við komumst ekki uppúr riðli en áttum engu að síður góðan endasprett þegar við sigruðum Hringhorna sem urðu í fjórða sæti í keppninni. Sú viðureign við þá félaga endaði í bráðabana sem við sigruðum. Við fengum þó viðurkenningu sem glyðrur mótsins þetta árið, komum því ekki heim alveg beygðar. Við Jóhanna Þórdórs og Hólmfríður Sveins sem voru með mér í liði komum hinsvegar sterkar til keppni að ári og stefnum á sigur á mótinu!


KUBB er góð fjölskylduskemmtun og var því mikið af börnum með okkur í Borgarnesi í gær sem stóðu sig eins og hetjur í nokkrum liðanna. Júlíus ákvað að horfa á í þetta skiptið en heillaðist svona líka af spilinu að hann ætlar að hefja stífar æfingar og taka þátt á næsta ári! Nánari upplýsingar um KUBB er að finna á slóðinni www.folk.is/kubb

Horfðum á Stelpurnar á Stöð 2 eftir að við komum heim í gærkvöldi. Mér fannst þetta bráðskemmtilegt og hlakka til að sjá næsta þátt. Júlíus skildi nú ekki endilega alla brandarana en hann hló sig máttlausan þegar Brynhildur Guðjóns birtist á skjánum sem hin ofurákveðna breska húsmóðir. Enda listavel gert hjá henni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home