sunnudagur, september 04, 2005

Aðeins um Steinunni Valdísi og Gísla Martein

Skrýtið hvernig öll umræðan um borgarmálin er farin að snúast um Gísla Martein. Það er auðvitað frábært fyrir hann - held ég a.m.k. Aðrir frambjóðendur þurfa hinsvegar að lifa við það að geta ekki komið í sjónvarps- eða útvarpsþætti nú eða blaðaviðtöl nema sitja uppi með það þurfa að vera svara spurningum um framboð Gísla og hafa á honum einhverja sérstaka skoðun umfram aðra frambjóðendur. Það finnst mér skrýtin staða fyrir þetta ágæta fólk sem er búið að lifa og hrærast í borgarmálunum yfir áratug í sumum tilfellum. Gísli Marteinn hefur ekki setið í borgarstjórn nema sem varamaður og því ekki mikið vitað um hans áherslur og þetta ágæta fólk líklega lítið starfað með honum. Hvernig geta þessir reynsluboltar haft skoðun á manni sem er nánast óskrifað blað í borgarmálaumræðunni?

Ég hef verið afar ósátt við það hvernig vegið er að Steinunni Valdísi borgarstjóra í fjölmiðlum og annarsstaðar undanfarið. Hún hefur fengið afar ósanngjarna meðferð og fólk virðist búið að gleyma því að hún er ein þeirra sem hefur starfað lengst innan Reykjavíkurlistans eða frá því að hann tók við borginni 1994. Hún á því skilið að rætt sé um árangur hennar sem borgarfulltrúi í öll þessi ár. Þau góðu verk sem R-listinn kom til leiðar eru ekki síst Steinunni að þakka - þessu mega menn ekki gleyma í öllu atinu við að koma sjálfum sér að. Mér finnst hún einnig hafa staðið sig vel sem borgarstjóri og finnst asnaleg og ósanngjörn sú umræða að hún hafi verið einhver millileikur. Staðreyndin er sú að henni var treyst innan Rvk - lista samstarfsins til að sitja í stóli borgarstjóra vegna reynslu sinnar og þekkingar og án efa vegna þeirrar tryggu persónu sem hún hefur að geyma. Gat ekki látið hjá líða að segja um þetta nokkur orð því af þeim sem nú sækja á fyrstu sætin hjá öllum flokkum sem bjóða munu fram í borginni hefur Steinunn líklega komið hvað mestum umbótum í framkvæmd fyrir borgarbúa.

Í lokin verð ég að nefna það að ég skil ekki alla þessa umræðu um aldur Gísla Marteins. Mér finnst hann ekkert ungur enda er hann nokkrum árum eldri en ég. Giftur og ber þá miklu ábyrgð að ala upp tvö börn. Ég vona að fólk hætti að velta sér uppúr aldri hans og fari að kalla eftir svörum við því hvað hann ætli sér að gera fyrir borgarbúa. Það er það sem skiptir máli.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sammála þér með það að aldurinn skipti ekki máli, mér finnst meira máli skipta sú menntun sem hann segist hafa en hefur ekki, samanber fréttir stöðvar2 í dag (4/9 2005)

5/9/05 00:21  

Skrifa ummæli

<< Home