fimmtudagur, september 08, 2005

Vond ákvörðun hjá Þorgerði Katrínu að leggja Listdansskóla Íslands niður

Fyrir skömmu lýsti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra því yfir að nýhafinn skólavetur yrði sá síðasti í sögu Listdansskóla Íslands. Þessi yfirlýsing kom okkur öllum í opna skjöldu og hafa þeir aðilar sem að listdansnáminu standa sem og Bandalag íslenskra listamanna mótmælt vinnubrögðum ráðherrans harðlega. Ekkert samráð var haft við fagaðila og ekki liggur fyrir hvað verður um listdansnámið í heild sinni - einungis að hluta þess verði fyrirkomið í framhaldsskólunum. Þetta verða að teljast afar vond vinnubrögð að leggja niður lífæð listdanssins í menntakerfinu án þess að fyrir liggji hver framtíð námsins verður.

Ég sótti opinn fund sem haldinn var um málið í LHÍ s.l. mánudagskvöld og var þar afar heitt í fólki og mikill uggur vegna málsins. Foreldrar barna í skólanum lýstu áhyggjum sínum sem og börnin sjálf auk listdansara og annarra listamanna sem vel til málsins þekkja.

Hvert fer grunnnámið?
Listdansskóli Íslands hefur gegnt mikilvægu hlutverki í menntun listdansara á Íslandi. Þangað geta dansarar framtíðarinnar sótt sína menntun frá unga aldri. Þorgerður Katrín hefur ekki sagt þessum ungu krökkum sem eru á grunnskólaaldri og hafa ákveðið að leggja fyrir sig listdans hvert þau geti sótt menntun sína á því sviði á næsta ári. Það er ömurleg staða fyrir þessa krakka sem eiga sér stóra drauma og hafa fundið sig í listdansinum. Þessir krakkar verða að fá svör frá ráðherranum.

Sérstaða skólans mikil
Það er ruglingsleg framtíðarsýn fyrir listdansnámið ef koma á því fyrir innan veggja grunn- og framhaldsskólanna eins og þeir eru í dag. Í fyrsta lagi vegna þess að kraftar stéttarinnar myndu dreifast óþarflega. Í öðru lagi vegna þess að námið krefst sérhæfðrar æfingaaðstöðu og faglegrar kennslu. Í þriðja lagi hefur listdansskólinn sinnt þeim einstaklingum sem hafa getað og viljað gera þetta "auka" sem til þarf til að leggja listdansinn fyrir sig. Dansnám í skólakerfinu er annars eðlis því þar er það hluti af þroskaferli barnanna og ætlað til að efla líkama þeirra og sál. Listdansskóli Íslands hefur hinsvegar sinnt þeim sem vilja sérhæfa sig á þessu sviði og jafnvel gera listdansinn að ævistarfi. Á því er klárlega mikill munur. Í fjórða lagi er samfella í þessu námi eins og öðru listnámi mikilvæg. Þessi samfella hefur verið til staðar vegna listdansskólans en hefur nú verið sett í uppnám.

Óljós framtíðarsýn
Við eigum frábæra listamenn á sviði listdansins hér á landi. Listdansskóli Íslands hefur verið lykilstofnun í því að mennta þessa listamenn. Nú í haust var síðan tekið upp nám í listdansi á háskólastigi í LHÍ sem er alveg frábær viðbót. Þessi ákvörðun menntamálaráðherra um að kippa fótunum undan grunnnáminu er í því ljósi með öllu óskiljanleg. Ekkert er eilíft og það má vel vera að við einhverjar kringumstæður væri eðlilegt að leggja Listdansskólann niður. En þá er lykilatriði að fyrirliggji hvað eigi að koma í staðinn. Framtíðarsýn ráðherrans er afar óljós ef hún þá er einhver. Ég vona að hún sjái að sér og dragi þessa ákvörðun tilbaka kalli á fagaðila og fari betur yfir málið með það fyrir augum að treysta grunn námsins til framtíðar.

Ég mun taka þetta mál upp þegar þing kemur saman og kalla eftir ástæðum ráðherra fyrir þessari ákvörðun og framtíðarsýn ráðherra á fyrirkomulag listnáms. Svörin hingað til hafa verið heldur haldlítil og einkennst af fullkomnu skilningsleysi gagnvart þessu námi.

Bæta verður stöðu listmenntunar
Staða listmenntunar á Íslandi er ekki nógu góð. Það er engin stefna í gangi af hálfu hins opinbera. Gott dæmi um þetta er tónlistarnámið sem nú er orðið bitbein milli ríkis og sveitarfélaga. Við eigum að draga af því lærdóm en ekki senda fleiri listnámsgreinar inná þá braut. Menntamálaráðherra verður að skoða listnámið heildrænt og marka faglega stefnu til framtíðar í stað stefnu einfalds niðurskurðar og þægilegri stjórnsýslu.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum á mánudaginn: "Opinn fundur haldinn 5. september í húsnæði Listaháskóla Íslands, mótmælir harðlega einhliða ákvörðun menntamálaráðherra um lokun Listdansskóla Íslands og krefst þess að lokun skólans verði frestað þar til framtíð listdansnáms á grunn- og framhaldsskólastigi hefur verið tryggð í samráði við fagmenn í greininni."

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sæl Katrín mín,
Ég er fylgjandi því að ýta aðeins á hana Þorgerði Katrínu. Finnst að mikið vanti uppá að list á Íslandi megi njóta sín.

Á svipuðum nótum, hvort er ljósmyndun list eða iðn? Hver er staða ríkis? en þín?

14/9/05 22:29  

Skrifa ummæli

<< Home