föstudagur, september 23, 2005

Nú þarf alvöru lausnir ekki plástra!

Mikið hefur verið um að vera síðustu vikur bæði í flokksstarfi Samfylkingarinnar og í undirbúningi fyrir þingið sem hefst aftur þann 1.október n.k. Síðan ég bloggaði síðast hefur verið stofnuð kvennahreyfing Samfylkingarinnar, stofnuð ungliðahreyfing í Mosfellsbæ og mánudagsfundir hjá Samfylkingunni í Kópavogi komnir af stað aftur.

Stofnfundur kvennahreyfingarinnar var haldinn á Hótel Örk síðustu helgi og voru á annað hundrað konur þátttakendur í þeim frábæra fundi. Starf kvennahreyfingarinnar er komið á gott skrið og vil ég benda á vefsíðu sem hefur verið opnuð á slóðinni www.kvennahreyfing.net. Þar munum við samfylkingarkonur skrifa um þau málefni sem helst á okkur brenna hverju sinni auk þess sem talsvert af upplýsingum verður þar að finna.

Ungir jafnaðarmenn stofnuðu félag í Mosfellsbæ s.l. þriðjudag. Samfylkingin mun nú bjóða fram í fyrsta sinn ein og sér í bænum í sveitastjórnarkosningunum í vor. Það var því mikill hugur í mönnum á fundinum og voru sex öflugir einstaklingar kosnir í fyrstu stjórn félagsins. Á fundinum lýstu margir áhyggjum sínum af stöðu dagvistunarmála þar í bæ. Þar er uppi sama staða eins og við höfum heyrt af t.d. í Kópavogi þar sem vantar verulega uppá fjölda starfsmanna til að halda uppi fullri þjónustu við börnin í bænum. Álagið á starfsmenn er því mikið og aðstæður allar alls ekki nógu góðar hvorki fyrir börnin eða starfsmennina.

Hækkum launin
Það hefur óþolandi plástrapólitík verið rekin þegar kemur að dagvistunarmálunum. Ár eftir ár er sami vandi að koma upp bæði á leiksskólunum og á frístundaheimilum grunnskólanna, það vantar fólk og það vantar fólk. Sumsstaðar eru aðstæður svo slæmar að það vantar líka almennilegt húsnæði til að reka þessa mikilvægu starfsemi og það veldur enn meira álagi á starfsmenn og börn sem þar starfa. Stjórnvöld á hverjum stað koma þá fram með reddingar til að fleyta starfinu áfram yfir veturinn en sami vandi kemur síðan alltaf upp aftur.

Firrt gildismat

Við erum öll sammála um nauðsyn þess að reka leikskóla og frístundaheimili. Það er hluti af okkar samfélagi og daglega lífi. Við erum líka öll sammála um að við eigum úrvalsfólk sem þar starfar og við viljum halda því þannig. Ég spyr því hvenær ætla stjórnvöld - bæði í ríkis- og sveitastjórnum - að finna framtíðarlausn svo leiksskólar og frístundaheimili geti starfað með eðilegum hætti? Meðal þess sem verður að gera er að auka möguleika fólks til að fagmennta sig á þessu sviði og hækka launin. Laun þeirra sem starfa með börnunum okkar eru skammarlega lág. Mér finnst þetta lýsa mjög firrtu gildismati. Vegna þess að það góða fólk sem sinnir börnunum okkar með frábæru starfi allan daginn á meðan við vinnum á ekki að vera á lægstu laununum. Þarna er eitthvað verulega mikið að í forgangsröðuninni.

Hvað er það mikilvægasta í lífi okkar og fyrir framtíð þessa þjóðfélags? Það eru jú börnin okkar. Förum þá að sýna það í verki og hefjum störf þeirra sem starfa með börnunum okkar upp til vegs og þeirrar virðingar sem þau eiga skilið!

Ég skora á ríki og sveitarfélög að taka höndum saman og finna framtíðarlausn í sameiningu. Það er eina leiðin.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home