miðvikudagur, júní 14, 2006

Að flýja sökkvandi skip

Mannabreytingar hjá hægri stjórninni sem nú situr sitt þriðja og vonandi síðasta kjörtímabil hafa verið afar tíðar að undanförnu. Má segja að flótti sé brostinn á liðið. Þeir flýja sökkvandi skip einsog rottunar forðum, enda ekki að undra. Fátt annað blasir við fleyinu en botninn. Steininn tók úr þegar formaður Framsóknar elti Árna krónprins. Nú vinna þeir bráðum báðir í banka. Halldór í seðla og Árni í alvöru.
Á meðan þessar breytingar allar hafa átt sér stað hefur ríkisstjórnin gerst sek um mikla vanrækslu við stjórn landsins sem birtist nú í hækkandi verðbólgu og óskýrri framtíð fjölmargra lykilstofnana. Þessi ríkisstjórn hefur sýnt það aftur og aftur að hún situr ekki til að gera þjóðfélaginu gagn heldur snýst hún eingöngu í kringum sjálfa sig og völdin. Og við borgum síðan brúsann eftir þetta tilgangslausa brölt. Almannahagsmunir eru fyrir borð bornir enda stólar handa fimm prósent Framókn málið. Helmingaskipti um bitlinga og völd. Út á það gengur hægri stjórnin.

Frekari ráðherrabreytingar í ágúst?
Á síðustu þremur árum hafa verið hér fjórir utanríkisráðherra, þrír forsætis-, umhverfis-, og félagsmálaráðherrar, tveir fjármála-, iðnaðar- og viðskipta-, heilbrigðis- og trygginga-, menntamála-, og sjávarútvegsráðherrar. Í slíkum hringlanda er ekki hægt að gera ráð fyrir því að mikið verk vinnist og sjáum við þess nú merki víða í samfélaginu að hér hefur ekki verið stöðug stjórn á mikilvægum málum. Nú hefur Framsóknarflokkurinn ákveðið að kosin verði ný forysta í ágúst. Valgerður Sverrisdóttir sem tekur senn við ráðuneyti utanríkismála hefur líst því yfir að hún sækist ekki eftir formennsku í flokknum. Því má gera ráð fyrir að nýr formaður muni falast eftir utanríkisráðherrasætinu eða trúir einhver að Guðni muni sitja áfram í landbúnaðarráðuneytinu og láta Valgerði utanríkismálin eftir ef hann verður kjörinn formaður í ágúst? Nei, hver sá sem kjörinn verður mun vilja setjast í stól utanríkisráðherra og því tel ég nokkuð ljóst að enn verði hrókerað í ágúst og að fimmti utanríkisráðherrann á kjörtímabilinu taki við. Sem hlýtur að slá allnokkur met!

Stórir hópar súpa seyðið af vanrækslunni
Á meðan ríkisstjórnin snýst í kringum sjálfa sig þá er verðbólgan hér á bullandi siglingu uppávið. Stórir hópar súpa nú seyðið af hringlandanum í ríkisstjórninni. Fjölskyldur þessa lands sem eru með miklar skuldir vegna húsnæðislána súpa seyðið af þessari vanrækslu í gegnum verðtrygginguna. Lánin bólgna út og verðbólgan étur upp eignir þessa fólks. Þessi ríkisstjórn hefur ekki sinnt efnahagsmálunum og því er nú svona komið. Eldri borgarar súpa seyðið af aðgerðaleysi þessarar ríkistjórnar og er stór hópur þeirra fastur í fátæktargildru tryggingakerfisins. Hækkuð skattbyrði og frosin skattleysismörk hafa komið harkalega niður á eldri borgurum. Þessi ríkisstjórn vinnur ekki fyrir fólkið í landinu en hikar ekki við að halda því fram að hér ríki stöðugleiki og að skattbyrði allra hópa hafi lækkað! Þetta eru hrein og klár ósannindi sem þessir hópar finna glöggt á eigin skinni.

Ærin verkefni jafnaðarmanna
Verkefnin sem bíða okkar jafnaðarmanna eftir næstu kosningar eru ærin eins og formaður Samfylkingarinnar fór yfir í ræðu á flokkstjórnarfundi okkar um helgina. Skora ég á alla þá sem finna fyrir þessari vanrækslu ríkisstjórnarinnar á eigin skinni að koma með okkur í það mikilvæga verkefni byrja að byggja upp raunverulegan stöðugleika og jöfnuð. Það er kominn tími til að gefa þessari ríkisstjórn frí því hún er gjörsamlega þrotin af kröftum og hugmyndum. Eini valkosturinn er öflug Samfylking. Annars situr valdabandalag hægri flokkanna áfram. Og áfram.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

helv.flott kona (þú) er stundum að lesa það sem þú skrifar er ekki sammála ,en hvað með það

31/8/06 23:30  

Skrifa ummæli

<< Home