föstudagur, febrúar 24, 2006

Ísland í ESB!

- grein birtist í Blaðinu 24.febrúar 2006

Mikið þótti mér spádómur Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra ágætur þegar hann spáði því fyrir skömmu að Ísland yrði orðinn fullgildur aðili innan Evrópusambandsins árið 2015. Hefði ég ekki trúað því fram að þessu að framtíðarsýn framsóknarmanns hugnaðist mér svo að við mér hreyfði. Gárungar hafa slegið því fram að með þessu hafi formaður Framsóknarflokksins verið að spá góðu gengi Samfylkingarinnar í stjórnmálum á næstu árum og forystu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Undir þetta er hægt að taka vegna þess að Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu á sinni stefnuskrá.

Lægra matarverð – bætt lífskjör
Aðild okkar að Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu yrði íslenskri þjóð til mikilla heilla og myndi bæta lífskjör hér á landi verulega. Fyrir því eru margar ástæður og ein þeirra sem vegur þyngst er lækkun á verði nauðsynjavara. Matarverð á Íslandi er mjög hátt eins og ítrekað hefur verið dregið fram í dagsljósið af ýmsum aðilum á undanförnum árum, þá ekki síst í skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðherra að beiðni Rannveigar Guðmundsdóttur þingmanns Samfylkingarinnar fyrir nokkrum misserum. Matarverð hér er miklu mun hærra en í ríkjum Evrópusambandsins og greiðum við 42% hærra verð fyrir mat en Evrópuþjóðir gera að meðaltali samkvæmt nýlegri norrænni könnun. Það er samhengi á milli matarverðs og aðildar að Evrópusambandinu ef þróun matarverðs í t.d. Svíþjóð er skoðað fyrir og eftir aðild. Svíar greiddu helmingi hærra verð fyrir matvöru áður en þeir gengu í Evrópusambandið en þeir gera nú. Slík lækkun á matvöru gæti því haft stórkostleg áhrif til bættra lífskjara fjölskyldna hér á landi

Lægri vextir
Spurningin um aðild okkar að Evrópusambandinu og myntbandalaginu er nefnilega spurning um lífskjör. Íslenska krónan sveiflast með slíkum látum að ekki verður mikið lengur við það unað þar sem það hefur veruleg áhrif á fólk og fyrirtæki. Fyrirtæki í útflutningi hafa sviðið á undanförnum árum undan gengissveiflunni og hefur hún haft veruleg áhrif á afkomu margra fyrirtækja s.s. í sjávarútvegi og þekkingariðnaði. Hætta er á að störf í þessum greinum flytjist í auknum mæli til útlanda sem mun stefna fjölbreyttum atvinnutækifærum okkar hér á landi í hættu. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar fer yfir það í yfirgripsmikilli grein á vefsíðu sinni frá 9.janúar s.l. hvernig vextir myndu lækka hér á landi við inngöngu, starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja batna og kjör neytenda stórbatna vegna aukinnar samkeppni svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru allt þættir sem stjórnmálamenn þurfa að ræða í samhengi við hugsanlega aðild að Evrópusambandinu því það er alveg ljóst að full aðild með upptöku evru getur fært okkur langþráðan stöðugleika og aukna velsæld.

Tökum umræðuna af krafti
Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er að mínu mati sú mikilvægasta í okkar samtíma. Evrópuumræðan þarf nú að fara fram af krafti á næstu misserum. Það eru margar knýjandi spurningar sem við verðum að svara í þeim efnum því við getum ekki haldið áfram að stinga höfðinu í sandinn og látið telja okkur trú um að við eigum ekkert erindi inn í Evrópusambandið eins og Sjálfstæðismenn með stuðningi Framsóknarmanna hafa komist upp með alltof lengi. Of miklir hagsmunir eru í húfi.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ja, sennilega svo pad er

16/1/10 12:50  

Skrifa ummæli

<< Home