miðvikudagur, desember 21, 2005

Æði rennur á íhaldið - en hvar er Geir?

- birtist í Blaðinu

Stjórnmálin eru oft furðulegt fyrirbæri. Síðustu mánuði höfum við horft á miklar og harðar árásir margra fjölmiðla og íhaldsins í landinu á Samfylkinguna. Af hverju nú? Jú, ný forysta tók við flokknum í vor og þá var kominn tími fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Moggann að endurtaka leikinn frá 2000; Samfylkinguna og hennar forystu skyldi tala niður og gera ótrúverðuga. Össur Skarphéðinsson fékk á sig fordæmalausar árásir sem formaður flokksins á þeim tíma. Hann reyrði upp í háls og lét brimskaflana frá íhaldinu, til hægri og vinstri, ganga yfir sig. Út kom hann sterkur og með flokk sem góður þriðjungur þjóðarinnar studdi. Sama er uppi nú. Ný forysta þarf að standa af sér veðrið og láta ekki hafa áhrif á störf og stefnu. Nú gilda stáltaugarnar.

Innantóm gagnrýni
Forysta Samfylkingarinnar hefur sætt mikilli gagnrýni sem ég tel óverðskuldaða, innantóma og oft á tíðum í litlum tengslum við raunveruleikann. Þegar skipt var um forystu í Samfylkingunni síðastliðið vor rann gamla æðið á Sjálfstæðisflokkinn sem drifið er áfram af valdagræðgi og ótta. Öllu hefur verið tjaldað til að kasta rýrð á flokksforystu Samfylkingarinnar og settur af stað mikill hamagangur til að reyna að tala flokkinn niður og gera ótrúverðuga. Hver man ekki níðræðu Davíðs Oddssonar á landsfundi íhaldsins 2001? Upp úr honum rann rógur í hálftíma um Össur. Svo var hægt að fara að tala um pólitík. Sama á sér nú stað.

Blaðran springur
Á sama tíma og ryki er þyrlað í kringum Samfylkinguna er undarleg sú þögn sem ríkir í kringum Geir H. Haarde nýkjörin formann Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur bókstaflega horfið af sjónarsviðinu eftir að hafa verið kjörinn formaður sjálfstæðismanna í október. Ekkert hefur komið fram um það hverjar hans áherslur verði í formannsstóli né hefur hann sýnt neitt í verki sem gefur neinar vísbendingar þar um. Á sama tíma hefur hans fólk hinsvegar hamast í forystu Samfylkingarinnar. Það er skrýtin byrjun hjá stjórnmálamanni sem vill vinna sér traust þjóðarinnar til framtíðar. Sú blaðra mun fljótt springa í andlitið á þeim félögum því enginn heldur lengi því fylgi sem byggist á því að tala andstæðinginn niður.
Ósanngjarnt væri nú að segja öll forysta Sjálfstæðisflokksins hefði horfið eftir kjör hennar í október. Þorgerður Katrín hefur nefnilega verið nokkuð áberandi fyrir að koma sér í afar erfið mál þar sem meira hefur verið um innihaldslitlar yfirlýsingar en raunveruleg verk. Eftir haustið loga fleiri bál en nokkru sinni á sviðum mennta og menningar hér á landi.

Samfylkingin sterk
Samskonar óveður hefur nú verið var búið til af Sjálfstæðisflokknum í kringum Ingibjörgu og gert var í kringum Össur eftir að Samfylkingin var stofnuð árið 2000 einsog áður sagði. Voru þær árásir á tíðum afar ósmekklegar og er alveg ljóst að Davíð og íhaldið óx ekki af þeim leiðangri sem rekin var áfram af ótta við Samfylkinguna. Eftir alla orrahríðina og djúpan öldudal í skoðanakönnunum stóð forystan þá uppi sterkari en áður. Ég efast ekki um að ný forysta Samfylkingarinnar með Ingibjörgu Sólrúnu fremsta í flokki mun standa sterkari eftir þessa atlögu eins og Össur gerði á sínum tíma. Spjótalögin munu hitta þá fyrir sem stinga. Svo ósmekklega er að málum staðið og svo innantómt er hjalið

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home