föstudagur, nóvember 11, 2005

Framtíðarlausnir fyrir leikskólana

- Grein birt í Blaðinu 11. nóvember

Mikið hefur verið fjallað undanfarna mánuði um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í leikskólum landsins vegna skorts á starfsfólki til kennslu. Víða á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í sveitarfélaginu mínu Kópavogi, eru börn send heim nokkra daga í mánuði til að mæta þessari vöntun á starfsfólki í leikskólunum. Þetta kemur sér auðvitað illa fyrir alla hlutaðeigandi og veldur miklu álagi á þær fjölskyldur sem fyrir þessu verða að ekki sé talað um þá starfsmenn sem fyrir eru. Í þeim sveitarfélögum þar sem náðst hefur að manna leikskólana er það þó bara rétt svo fyrir horn því víða þarf að senda börn heim ef umgangspestir láta á sér kræla meðal starfsmanna.

Launin skammarlega lág
Þessi vandi er árstíðabundinn og kemur upp á haustin og um áramót. Sumstaðar sleppur þetta fyrir horn og það tekst að manna stöðurnar og sumstaðar ekki. Og það hefur lítið með það að gera hvað sveitarfélagið heitir eða flokkurinn sem heldur þar um stjórnartaumana. Grunnvandinn er nefnilega allsstaðar hinn sami; gríðarleg starfsmannavelta og alltof lág laun. Mér hefur fundist ríkisvaldið sleppa nokkuð létt í gegnum þessa umræðu hingað til því ábyrgð þess er mikil. Til að leysa starfsmannavanda leikskólanna þarf margt að koma til og vil ég í þessum greinarstúf nefna tvö stærstu atriðin: Í fyrsta lagi verða að koma til verulegar launahækkanir fyrir þessi störf sem eru skammarlega lágt launuð og á engan hátt samkeppnishæf. Þar ber ríkisvaldið sína ábyrgð vegna ranglátrar tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Enginn er eyland í þessum efnum og ríkisvaldið verður að fara að axla sína ábyrgð þegar kemur að fjármögnun á verkefnum sveitarfélaganna með því að fjölga tekjustofnum þeirra.

Helmingi umsækjenda vísað frá
Í öðru lagi og samhliða launahækkunum verður að fjölga leikskólakennurum. Hlutfall leikskólakennara við störf í leikskólum er í kringum 34% þeirra sem starfa við kennslu. Á síðasta ári var helmingi umsækjenda um leikskólakennaranám í Kennaraháskólanum vísað frá vegna plássleysis. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand þegar það blasir við og hefur gert árum saman að fjölga verður leikskólakennurum verulega. Í umræðum um málið á alþingi í gær skoraði ég á ráðherra að veita auknu fé til leikskólakennaramenntunar því það er svo sannarlega eftirspurn eftir náminu og þörf fyrir þessa menntun í samfélaginu. Svörin voru heldur rýr og taldi ráðherra nú þegar nóg að gert í þeim efnum. Því er ég ekki sammála þegar það er umframeftirspurn eftir náminu á sama tíma og fólk vantar í störf á leikskólum.

Ríkið er ekki stikkfrí
Við þurfum fleiri sem vilja gera störf með börnum í leikskólunum að ævistarfi. Til þess að svo megi verða verður að gera betur við þessa starfsmenn hvort sem þeir eru faglærðir eða ófaglærðir. Það á ekki að vera neitt eðlilegt við það að á þenslutímum streymi starfsmenn útúr leikskólunum í önnur störf. Við verðum að endurmeta hvernig við verðleggjum störf í okkar samfélagi því það er ekkert náttúrulögmál að fólkið sem vinnur með börnunum okkar sé á lægstu laununum. Þetta er allt mannanna verk og þeim er hægt að breyta með pólitískum vilja og samstöðu þeirra sem geta þessu breytt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home