fimmtudagur, október 13, 2005

Framsókn á villigötum

- Grein birt í Blaðinu í dag.

Forsætisráðherra hefur verið tíðrætt um stöðu fjölskyldunnar á Íslandi og stofnað sérstaka nefnd til að huga að málefnum hennar. Fagna ég þessu og er svo sannarlega á mörgum þáttum sem þarf að taka. Það veldur því sárum vonbrigðum að í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi eigi annað árið í röð að skerða vaxtabætur. Vaxtabætur eru einmitt mikilvægt tæki til að koma til móts við barnafjölskyldur og létta þeim róðurinn og þá ekki síst þeim tekjulægstu. Lítið samhengi er því milli orða og efnda hjá forsætisráðherranum og hans ríkisstjórn í þessum efnum.

Vaxtabætur eru ekki lúxus
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á að skerða vaxtabæturnar sem nemur 450 milljónum króna. Í texta frumvarpsins kemur fram að þetta sé í samræmi við áform um aðhald með útgjöldum ríkissjóðs. Fjárlagafrumvarpið er stefnumarkandi plagg. Það er því stefna þessarar ríkisstjórnar að á næsta ári skuli kroppa aurana af unga fólkinu með húsnæðisskuldirnar. Þannig ætlar þessi ríkisstjórn m.a. að mæta eigin hagræðingarkröfu. Ég hefði haldið að skerðing til að mæta áformum um aðhald þýddi að skera ætti niður óþarfa lúxus. Þessi ríkisstjórn virðist því líta þannig á að vaxtabætur vegna húsnæðislána á tímum uppsprengds húsnæðisverðs sé lúxus á venjulegum heimilum íslenskra barnafjölskyldna. Því er ég algerlega ósammála.

Hátt húsnæðisverð
Á barnafjölskyldum hvíla miklar birgðar. Þar vegur þungt hátt matvælaverð, skólagjöld í leiksskóla, gjöld fyrir dagvistun yngri barna í grunnskólum, hár læknakostnaður og þá ekki síst tannlæknakostnaður og nú himinhár húsnæðiskostnaður. Daglegur rekstur heimila þar sem börn búa er afar kostnaðarsamur í okkar samfélagi og margir þættir sem leggjast á eitt við það að þyngja róðurinn. Nú þegar húsnæðisverð hefur rokið upp og skuldir ungra barnafjölskyldna vegna húsnæðiskaupa aukist að sama skapi ætlar ríkisstjórnin sem boðar fjölskyldustefnuna að kroppa í vaxtabæturnar. Á ungum barnafjölskyldum hvílir þung vaxtabyrði vegna húsnæðiskaupa. Og af heildarskuldum ungs fólks er stærstur hluti tilkominn vegna húsnæðiskaupa.

Furðuleg fjölskyldustefna
Ungt fjölskyldufólk þarf að vinna langan vinnudag til að ná endum saman og lítill tími er fyrir samverustundir fjölskyldunnar. Skerðingin kemur sér beinlínis illa fyrir margar barnafjölskyldur sem hafa gert ráð fyrir vaxtabótum við húsnæðiskaup og áætlanagerð heimilisins. Ungt fólk eru ekkert að bruðla eða taka óþörf lán – það er einfaldlega að koma sér og sinni fjölskyldu upp þaki yfir höfuðið. Þess vegna skuldar ungt fólk. Skuldasamsetning ungs fólks hefur sýnt okkur það á undanförnum árum. Ef einhvern tíma ungar barnafjölskyldur hafa þurft fullar vaxtabætur þá er það nú þegar verð á húsnæði hefur náð áður óþekktum hæðum. Boðskapur forsætisráðherra um bættan hag barnafjölskyldna er í þessu ljósi vægast sagt ótrúverðugur og ekkert nema sýndarmennska. Framsóknarflokkurinn er á villigötum og ríkisstjórnin er kominn í hugmyndalegt þrot ef þeim dettur ekkert annað í hug til að skera niður í ríksútgjöldum en að skerða innkomu barnafjölskyldna. Það þykir mér vægast sagt furðuleg fjölskyldustefna sem slíkar aðgerðir rúmast innan.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home