miðvikudagur, janúar 25, 2006

Gulli með frábært kombakk

Um nokkurt skeið hefur það verið sérstakt áhugamál mitt að fylgjast með ræðum Guðlaugs Þ. Þórðarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa í Reykjavík fyrir sama flokk - í þinginu. Ástæðan er sú að hann er einstaklega laginn við að snúa ræðum um hin ýmsu mál upp í ræðu um Reykjavíkurborg og Reykjavíkurlistann. Hann er með rólegan aðdraganda að því en bamm áður en þú veist af þá er ræðan hans farin að snúast um stjórnvöld í Reykjavík. Þá er gaman að því hvernig ræður hans geta tekið U-beygju ef hann bara sér Ingibjörgu Sólrúnu ganga í þingsal þegar hann er í miðri ræðu.

Það hefur þó farið lítið fyrir þessu hjá Guðlaugi nú í haust. Það er sosem ekkert óeðlilegt að hann hætti að tala um stjórnvöld í Reykjavíkurborg í þinginu nú þegar Guðlaugur hefur ákveðið að hætta í borgarstjórn. Því var ég farin að halda að hann hefði látið af þessu fyrir fullt og allt - mér til mikilla vonbrigða auðvitað því þetta getur verið ævintýralega skemmtilegt.

Því verð ég að viðurkenna að ég gladdist mjög - flissaði og skríkti í sæti mínu - í þingsalnum á mánudagskvöldið í miðjum þungum umræðum um Ríkisútvarpið hf. þegar Guðlaugur tók til máls í andsvari við formann Samfylkingarinnar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Með meistarlegum töktum sneri hann ræðu sinni frá frumvarpi um Ríkisútvarpið hf. og fór að ræða stjórnunarhætti innan Reykjavíkurborgar. Ég verð að viðurkenna að það heyrðist lítið "Yesss" úr sætinu mínu yfir þessu frábæra kombakki Gulla borgarfulltrúa minnihlutans í Reykjavík í ræðustól alþingis. Hann hélt síðan uppi uppteknum hætti í gær í umræðum um skipan starfshóps um starfsnám á vegum menntamálaráðherra. Þið sjáið kannski ekki tenginguna en það gerir Gulli.

Guðlaugur hefur komið sterkur inn í vikunni með kunnuglega takta sem eru að verða allt að því vinalegir bara. Manni þykir orðið vænt um þetta tuð hans og biturð útí stjórnvöld í Reykjavík. Og svo virðist sem Gulla þyki gott að blása dáldið út kergju og reiði sinni í ræðustól alþingis og því á hann bara að gera það. Við hin getum alveg beðið með umræðuna hverju sinni á meðan.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home