mánudagur, janúar 23, 2006

Heilbrigðir unglingar

Fór í bláfjöll á skíði á föstudagskvöldi nú um síðustu helgi. Mikið var það aldeilis frábært alveg, fínt færi og gott skyggni. Gömlu stórsvigsskíðin stóðu vel fyrir sínu. Þau eru 195 á hæð eða 25 c.m. hærri en ég sem þótti nú aldeilis fínt hér á árum áður - þá var best að vera á sem lengstum skíðum ef maður var vanur skíðamaður. Núna hins vegar eru flestir komnir á svokölluð Carverskíði (eða Curver - kann ekki að fara með það) og þau hafa styst talsvert - læt það þó ekki á mig fá heldur skíða ótrauð áfram á lengjunum mínum með beygluðu stafina!

Ég fer líka á snjóbretti og er búin að eiga eitt slíkt - sama brettið - í 18 ár og það stendur sig líka alveg frábærlega. Var búin að gleyma því hversu fljótt svona búnaður "úreldist", það eru heldur betur tískusveiflur í þessu eins og öðru. Tískueltarinn sem þetta skrifar ætlar þó ekki að láta þetta á sig fá og skíðar nú samkvæmt mottóinu: Allt sem er gamalt er gott!

Það vakti þó athygli mína í þessari skíðaferð í bláfjöllin hversu mikið af unglingum þar var saman kominn á föstudagskvöldi - en fólk undir tvítugu var mikill meirihluti gesta. Ungmenni streymdu í fjöllin hvort sem var á skíði eða snjóbretti og mynduðust langar raðir alveg þar til síðasti stóllinn fór upp fyrir lokun. Það geislaði af þeim hreystið og gleðin yfir langþráðri opnun á svæðinu. Þetta fékk mig til að hugsa hversu oft maður heyrir neikvæðar fréttir af unglingum. Af hverju er ekki fjallað um allan þann fjölda unglinga sem streymir í fjöllin til að iðka afar góða og heilbrigða útiveru og það á föstudagskvöldi?!

Það er alltaf fjallað um unglinga eins og þeir séu allir eins og ef einn misstígur sig í 100 manna hópi séu allir hinir í bráðri hættu. Mér finnst umfjöllun um unglinga alltof neikvæð. Unglingar eru ekki allir eins - þeir eru flestir sterkir og heilbrigðir einstaklingar. Um það á að fjalla meira um leið og fjallað er um töfra unglingsáranna sem eru einstakur tími sem kemur ekki aftur.

3 Comments:

Blogger Örn Úlfar said...

Carving skíði...

23/1/06 15:24  
Blogger Katrin said...

Halló Örn Úlfar

Takk fyrir þetta:) Svona er maður illilega dottin útúr nýjasta nýju í skíðaheiminum að ég næ ekki einu sinni að hafa þetta rétt þó ég geri til þess tvær tilraunir!

Kveðja, Kata

23/1/06 17:37  
Anonymous Nafnlaus said...

Sæl Katrín :) Mér finnst það nú meira um vert að þú ert að hrósa unglingunum .Stafsetning á skiðagerðum er minna mál .
Það mætti nefnilega vera miklu meira um það að fólk hrósi ,sértaklega þið sem í reglulega í fjölmiðlum ,reyndar hef ég ekkert nema gott um það sem ég hef tekið eftir hjá þér svo haltu bara áfram á réttri braut :).Við þekkjum það öll að hrós er miklu betra en skammir :)

Kveðja ; Haraldur Guðbrandsson

6/2/06 18:52  

Skrifa ummæli

<< Home