sunnudagur, janúar 22, 2006

Íhaldið sefur – Samfylkingin setur leikskólamálin í forgang

- grein birt í janúarútgáfu Kópavogsblaðsins

Sofandaháttur bæjaryfirvalda í Kópavogi í málefnum leikskólanna nú í haust hefur verið með hreinum ólíkindum. Foreldrar á nokkrum leikskólum hér í bæ hafa nú í allt haust þurft að vera heima með börnum sínum á nokkurra daga fresti vegna skorts á starfsfólki. Þetta hefur í för með sér mikið rask fyrir börnin, mikið álag á það starfsfólk sem fyrir er á leikskólunum, vinnutap fyrir foreldra og rask fyrir þau fyrirtæki sem foreldrarnir starfa hjá. Íslenskt samfélag krefst þess í dag að báðir foreldrar vinni úti. Leikskólarnir eru hluti af grunnþjónustu sveitarfélaganna og á að vera forgangsmál að hafa þá starfhæfa. Íhaldið og framsókn í Kópavogi virðast þó ekki líta svo á því það er ekki fyrr en mörgum mánuðum eftir að manneklan fór að hafa ofangreind áhrif á starfsemi leikskólanna sem bæjaryfirvöld rumska.

Bæjarstjóri íhaldsins á móti launahækkunum
Starfsmannavelta í leikskólum er alltof mikil. Í desember 2004 var hún samkvæmt upplýsingum á vef hagstofunnar, alls 23%, þar af 30% meðal ófaglærðra og 7% meðal faglærðra leikskólakennara. Til þess að aukinn stöðugleiki verði í rekstri leikskólanna verður að minnka þessa starfsmannaveltu. Tvennt þarf þar að koma til; í fyrsta lagi er löngu tímabært að launin verði hækkuð fyrir þessi störf og í öðru lagi verður að fjölga þeim sem gera störf á leikskólum að ævistarfi. Þessu áttar borgarstjórinn í Reykjavík sig á og hefur því hækkað laun hinna ófaglærðu, hafið viðræður við faglærða um launakjör þeirra og sent menntamálaráðherra bréf og hvatt til þess að fleiri séu teknir inn í leikskólakennaranám. Hvað gerðu bæjaryfirvöld í Kópavogi á meðan með bæjarstjórann Gunnar Birgisson í broddi fylkingar? Nákvæmlega ekkert var gert til að leysa málin hér. Bæjarstjórinn í Kópavogi gagnrýndi harðlega launahækkanirnar í Reykjavík og lýsti sig algerlega mótfallinn þeim.

Menntamálaráðherra íhaldsins sefur þyrnirósarsvefni
Á haustönn 2004 var helmingi umsækjenda um leikskólakennaranám í Kennaraháskólanum vísað frá vegna takmarkaðra fjárheimilda. Í umræðum utandagskrár á alþingi nú í byrjun nóvember kallaði ég eftir því að fleiri yrðu teknir inn í leikskólakennaranámið. Svör menntamálaráðherra gáfu það skýrt til kynna að það væri ekki á dagskrá. Hún sefur því þyrnirósarsvefni líkt og íhaldið í Kópavogi gagnvart málefnum leikskólanna. Eitthvað eru bæjaryfirvöld að rumska nú eftir áramótin þegar ástandið í starfsmannamálum leikskóla Kópavogs hefur enn versnað og hávær mótmæli hafa verið í bænum vegna ástandsins.

Þurfum varanlegar lausnir
Alltof lengi hefur starfsmannavandinn á leikskólunum verið afgangsstærð hér í Kópavogi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur bara engan áhuga á þessum málaflokki. Það hefur berlega komið í ljós nú í haust því á meðan vandinn hefur vaxið hefur bæjarstjórinn ekkert gert þó fyrirséð væri að vandinn myndi vaxa enn nú um áramótin. Bæjarstjórinnleggur þó mikla vinnu í undirbúa byggingu nýrra óperu- og íþróttahalla fyrir fleiri milljarða á sama tíma og leikskólabörnin, foreldrar þeirra og starfsmenn leikskólanna búa við vanrækslu af hans hálfu. Það er kominn tími til að varanlegar lausnir verði fundnar í starfsemi leikskólanna, það er ekki nóg að byggja þá það verður að hlú að innra starfinu.

Samfylkingin ætlar að breyta
Í vor verður kosið í sveitarstjórnarkosningum. Ég hvet bæjarbúa til að kjósa þau öfl sem ætla að sinna leikskólamálunum hér og hafa sýnt það í verki. Það hafa bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar gert í bæjarstjórn og bæjarráði í allt haust með málflutningi sínum og tillögugerð en talað fyrir daufum eyrum. Það er ekki nóg að rumska rétt fyrir kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa stjórnað bænum í 16 ár og hafa á þeim tíma vanrækt skyldur sínar gagnvart öllum þeim sem að leikskólunum koma. Nú er komið nóg. Samfylkingin ætlar að leggja áherslu á bættan aðbúnað leikskólasamfélagsins. Tími Samfylkingarinnar við stjórn bæjarins er kominn.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

pointsa hands databases numerous dadaistic teaching reaches cmis colligative tiwarivideh extension
masimundus semikonecolori

17/12/09 22:12  

Skrifa ummæli

<< Home