þriðjudagur, september 12, 2006

Billegar yfirlýsingar og misskipting

Ég var í viðtali í Íslandi í bítíð í gær með Guðlaugi Þór Þórðarsyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Guðlaugur er einn þeirra sjalla sem trúir í blindni á þá hugmynd að ef lygi er sögð nógu oft verði hún sönn. Þannig hélt hann því fram (og það ekki í fyrsta sinn) að ef stjórnarandstöðuflokkarnir tækju hér við landsstjórninni eftir næstu kosningar þýddi það skattahækkanir og óstjórn í efnhagsmálum. Þetta er í besta falli hlægileg staðhæfing í ljósi þess að sýnt hefur verið framá að skattbyrði hefur verið aukin svo um munar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eini hópurinn sem ekki hefur fengið hækkaða skattbyrði heldur lækkaða er 10%-in sem hæstar hafa tekjurnar. Þetta hefur verið staðfest í svari frá fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur í þinginu. Sjá svarið hér

Varðandi óstjórn í efnahagsmálum. Þá er Guðlaugur Þór á ansi hálum ís að halda því fram að önnur ríkisstjórn en sú sem nú situr myndi kalla yfir okkur óstjórn í efnhagsmálum. Þetta segir Guðlaugur á sama tíma og viðskiptahallinn er að slá hvert metið á fætur öðru (væri vert að kanna hvort ekki sé um heimsmet að ræða) og er hann sá hæsti innan OECD ríkjanna. Hér er bullandi verðbólga sem hefur hrikaleg áhrif á húsnæðislánin sem bólgna nú út vegna verðtryggingarinnar á meðan lítil hreyfing er á fasteignum og fasteignaverði. Krónunni hefur verið líkt við korktappa úti á ólgusjó og hafa sveiflurnar farið í 40% - það þarf ekki að fara yfir það hvað þetta þýðir fyrir útflutningsgreinarnar og vöruverð í landinu. Svona er hægt að halda endalaust áfram í yfirferð yfir afleiðingar efnhagsstjórnar ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks: allsstaðar blasa mistökin við. Af mistökunum súpa Íslendingar nú seyðið og greiða m.a. fjórum sinnum hærri vexti en í Evrópu og tugum prósenta hærra verð fyrir nauðsynjavörur auk þess að horfa nú á eign sína í íbúðarhúsnæði sínu skreppa saman dag frá degi - ævisparnaður unga fólksins sem það hefur lagt í húsnæði minnkar dag frá degi.

Hægt að lækka matarverð á morgun
Merkilegt fannst mér líka hvað Guðlaugur var brattur þegar hann lýsti því yfir að ekkert mál væri að lækka matarverð á morgun. Voru þetta viðbrögð hans við því að ég var að ræða um stórlækkun matarverðs í Svíþjóð eftir að svíar gengu inn í ESB. Í hvaða flokki hefur Guðlaugur eiginlega verið? Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað landinu í bráðum 12 ár með Framsóknarflokknum og ekki hreyft litla fingur til að lækka matarverð hér á landi. Þessir flokkar hafa haft alla möguleika í hendi sér að lækka matarverðið en ekki gert það. Lofaði ekki Sjálfstæðisflokkurinn því að lækka matarskattinn á þessu kjörtímabili – það loforð hefur ekki verið efnt. Í ljósi þessa finnast mér yfirlýsingar hans billegar og bera það eina merki að Guðlaugur sé á leið í prófkjör – engin merki eru nefnilega á lofti um að þessi ríkisstjórn muni standa fyrir aðgerðum til lækkunar á matarverði nú frekar en fyrri daginn.

Ekki vil ég nú bara draga fram neikvæðar hliðar viðtalsins því eitt sagði Guðlaugur Þór sem má hrósa honum fyrir og það er að hann tók undir það að hér á landi væri misskipting og sagði: "Það liggur alveg fyrir að það er misskipting" – og jánkaði því auðvitað að enda væri Sjálfstæðisflokkurinn ekki jafnaðarmannaflokkur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home