þriðjudagur, september 12, 2006

"Velferðarstjórn" Framsóknarflokksins

Á nýliðnu flokksþingi Framsóknarflokksins hélt Halldór Ásgrímsson sína síðustu yfirlitsræðu sem formaður þess flokks. Orð sem hann lét þar falla hafa staðið nokkuð í mér. Í ræðunni fullyrti Halldór nefnilega að velferðarstjórn væri réttnefni á stjórnarsamstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Ekki veit ég hvort Halldór hafi verið að slá á létta strengi svona í lok ferils síns eða hvort framsóknarmenn séu svona illa haldnir af ranghugmyndum því ekki hafa verk ríkisstjórnarinnar gefið til kynna að þar fari velferðarstjórn. Hið síðara er öllu verra því það gefur okkur fyrirheit um það sem koma skal haldi samstarf þessara flokka áfram – fyrirheit um áframhaldandi misskiptingu.

Velferð hinna fáu
Mér þykir illa farið með hugtakið velferðarstjórn þegar það er notað í samhengi við ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks því aldrei hefur ójöfnuðurinn verið meiri í íslensku samfélagi en einmitt nú eftir áralanga stjórnarsetu þessara flokka eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað bent á. Eftir þessa ríkisstjórn stendur nefnilega samfélag þar sem ójöfnuðurinn er orðinn hrópandi og getur ekki dulist nokkrum manni. Afleiðingar stjórnvaldsaðgerða þessarar ríkisstjórnar bera ekki velferðarstjórn nokkuð vitni nema þá kannski velferð hinna fáu.

Misskiptingarstjórnin
Eftir þessa ríkisstjórn stendur misskipting – misskiptingarstjórn er því réttnefni yfir þessa ríkisstjórn. Misskiptingunni hefur að stórum hluta verið stýrt í gegnum skattkerfið en með markvissum aðgerðum hefur ríkisstjórnin lækkað skatta á þá sem hafa allra hæstu tekjurnar á meðan skattbyrði á hin 90% heimilanna í landinu hefur hækkað – þá allra mest hjá hinum tekjulægstu. Þessar upplýsingar liggja allar fyrir. Þá hafa vaxtabætur og barnabætur verið skertar á sama tíma. Þetta þýðir að sú aukning kaupmáttar sem ríkisstjórnin hefur barið sér á brjóst fyrir hefur misskipst þannig að aukningin er 27% hjá lágtekjuhópunum - jafnvel enn lægri á lífeyrisþegum- en 78% hjá þeim allra tekjuhæstu. Þetta eru ekki ummerki velferðarstjórnar heldur misskiptingarstjórnar.

Tvöfalt heilbrigðiskerfi
Afleiðingar verka þessarar ríkisstjórnar misskiptingar koma harkalega niður á fjölskyldum í landinu. Aldrei hefur verið jafn dýrt að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Og nú er verðbólgan í tæpum 9% vegna efnahagsmistaka þessarar ríkisstjórnar. Unga fólkið sem öllu var lofað fyrir síðustu kosningar horfir því uppá húsnæðislánin bólgna út dag frá degi með tilheyrandi lífskjararýrnun. Vextir eru margfalt hærri hér en í nágrannalöndunum og verðlag á nauðsynjavörum er tugum prósenta hærri hér en í nágrannalöndunum eftir 11 ára stjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Stór hluti eldri borgara og öryrkjar þurfa að lifa á skammarlega lágum launum sem í ofanálag þeir þurfa að greiða skatt af vegna þess að misskiptingastjórnin frysti skattleysismörkin á meðan hún lækkaði skattana á þá sem hafa allra hæstu tekjurnar í landinu. Og nú hefur ríkisstjórnin með Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar staðfest með reglugerð vísi að tvöföldu heilbrigðiskerfi. Því nú eru hjartalæknar utan samninga og geta sjúklingar borgað sig framfyrir og sloppið við tafsamt tilvísanakerfi hafi þeir efni á því. Þetta eru ekki ummerki velferðarstjórnar heldur misskiptingarstjórnar.

Af þessu er ljóst að Framsóknarflokkurinn er stefnulaust rekald og alls ekki til þess bær að vera við stjórnvölinn áfram.


Greinin birtist í Blaðinu í dag

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home