föstudagur, febrúar 24, 2006

Ísland í ESB!

- grein birtist í Blaðinu 24.febrúar 2006

Mikið þótti mér spádómur Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra ágætur þegar hann spáði því fyrir skömmu að Ísland yrði orðinn fullgildur aðili innan Evrópusambandsins árið 2015. Hefði ég ekki trúað því fram að þessu að framtíðarsýn framsóknarmanns hugnaðist mér svo að við mér hreyfði. Gárungar hafa slegið því fram að með þessu hafi formaður Framsóknarflokksins verið að spá góðu gengi Samfylkingarinnar í stjórnmálum á næstu árum og forystu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Undir þetta er hægt að taka vegna þess að Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu á sinni stefnuskrá.

Lægra matarverð – bætt lífskjör
Aðild okkar að Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu yrði íslenskri þjóð til mikilla heilla og myndi bæta lífskjör hér á landi verulega. Fyrir því eru margar ástæður og ein þeirra sem vegur þyngst er lækkun á verði nauðsynjavara. Matarverð á Íslandi er mjög hátt eins og ítrekað hefur verið dregið fram í dagsljósið af ýmsum aðilum á undanförnum árum, þá ekki síst í skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðherra að beiðni Rannveigar Guðmundsdóttur þingmanns Samfylkingarinnar fyrir nokkrum misserum. Matarverð hér er miklu mun hærra en í ríkjum Evrópusambandsins og greiðum við 42% hærra verð fyrir mat en Evrópuþjóðir gera að meðaltali samkvæmt nýlegri norrænni könnun. Það er samhengi á milli matarverðs og aðildar að Evrópusambandinu ef þróun matarverðs í t.d. Svíþjóð er skoðað fyrir og eftir aðild. Svíar greiddu helmingi hærra verð fyrir matvöru áður en þeir gengu í Evrópusambandið en þeir gera nú. Slík lækkun á matvöru gæti því haft stórkostleg áhrif til bættra lífskjara fjölskyldna hér á landi

Lægri vextir
Spurningin um aðild okkar að Evrópusambandinu og myntbandalaginu er nefnilega spurning um lífskjör. Íslenska krónan sveiflast með slíkum látum að ekki verður mikið lengur við það unað þar sem það hefur veruleg áhrif á fólk og fyrirtæki. Fyrirtæki í útflutningi hafa sviðið á undanförnum árum undan gengissveiflunni og hefur hún haft veruleg áhrif á afkomu margra fyrirtækja s.s. í sjávarútvegi og þekkingariðnaði. Hætta er á að störf í þessum greinum flytjist í auknum mæli til útlanda sem mun stefna fjölbreyttum atvinnutækifærum okkar hér á landi í hættu. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar fer yfir það í yfirgripsmikilli grein á vefsíðu sinni frá 9.janúar s.l. hvernig vextir myndu lækka hér á landi við inngöngu, starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja batna og kjör neytenda stórbatna vegna aukinnar samkeppni svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru allt þættir sem stjórnmálamenn þurfa að ræða í samhengi við hugsanlega aðild að Evrópusambandinu því það er alveg ljóst að full aðild með upptöku evru getur fært okkur langþráðan stöðugleika og aukna velsæld.

Tökum umræðuna af krafti
Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er að mínu mati sú mikilvægasta í okkar samtíma. Evrópuumræðan þarf nú að fara fram af krafti á næstu misserum. Það eru margar knýjandi spurningar sem við verðum að svara í þeim efnum því við getum ekki haldið áfram að stinga höfðinu í sandinn og látið telja okkur trú um að við eigum ekkert erindi inn í Evrópusambandið eins og Sjálfstæðismenn með stuðningi Framsóknarmanna hafa komist upp með alltof lengi. Of miklir hagsmunir eru í húfi.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Réttur barnanna hundsaður

Umræður voru á alþingi í gær um galla á fæðingarorlofslögunum (nánartiltekið 18.gr.), þar sem foreldrar barna sem tímabundið hafa flutt lögheimili sitt vegna náms á erlendri grund hafa ekki sama rétt til fæðingarorlofs og aðrir foreldrar. Vandinn er sá að maki námsmanns á erlendri grundu fær ekki fæðingarstyrk frá Íslandi og í mörgum löndum t.d. Danmörku þar sem fjölmargir Íslendingar stunda nám, fá erlendir ríkisborgarar ekki fæðingarstyrk við þessar aðstæður. Annað foreldrið dettur því á milli kerfa sem hefur verulega áhrif á fjölskylduna og barnið.

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, tók þátt í umræðunni og svaraði því til að þetta væri flókið mál að leysa og snérist m.a. um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég varð nokkuð hlessa á kerfiskallalegu svarinu og afar sérkennilegri nálgun ráðherrans þar sem hann talaði mikið um hinn sjálfstæða rétt foreldranna sem ekki væri háð hinu og svo framvegis... - lesa ræðu ráðherra hér. Í ræðu sinni fjallaði Árni um málið eins og um sérstaka lúxusþjónustu við foreldra væri um að ræða. Svo er bara alls ekki.

Jafnræðisreglan og börnin

Svar Árna gefur til kynna að hann sé fallinn frá því markmiði sem lagt var upp með við setningu fæðingarorlofslaganna og kveðið er á um í 2.grein laganna þar sem segir "Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður." Nálgun Árna snýst alfarið um foreldrana og réttur þeirra mátaður við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. En hvergi var í ræðu Árna minnst á blessuð börnin sem þetta snýst nú allt saman um.

Mér þykir því eðlilegt að spyrja hvað með rétt barnanna til umönnunar af hálfu beggja foreldra fyrstu mánuði lífs síns?

Börn íslenskra ríkisborgara sem stunda nám erlendis sitja ekki við sama borð og önnur börn íslenskra ríkisborgara þar sem þau fá einungis tryggða umönnun annars foreldris - snertir það ekki jafnræðisregluna?

Hver er staða barna gagnvart stjórnarskránni? Er hún ekki sú sama og fullorðinna? Ég hefði nú haldið það að börn ættu sinn rétt varinn í stjórnarskrá. Árni virtist ekkert huga að því.

Fókus Árna er allt annar en lagt var upp með við setningu laganna. Það veldur mér verulegum áhyggjum því hann er samkvæmt svari sínu í gær komin langt útaf sporinu. Við eigum að nálgast þessi mál útfrá barninu og hvað því er fyrir bestu - réttur barnsins á að vera í fyrsta, öðru og þriðja sæti!


Mál til að leysa
Ég held að félagsmálaráðherra verði að endurskoða hug sinn og ganga í að leysa mál þessara fjölskyldna hið allra fyrsta. Fæðing barns á að vera dásamlegur tími í lífi hverrar fjölskyldu en ekki tími þar sem kvíði vegna afkomu skyggir á alla gleði. Auk þess getur þessi ráðstöfun eins og hún er nú valdið því að fjölskyldur þurfa að fara á lögheimilisflakk eða hreinlega sundrast á þessum viðkvæmu og mikilvægu tímum í lífi hverrar fjölskyldu og lífi barnanna.

Til að tryggja megi þessum börnum sama rétt og öðrum börnum íslenskra ríkisborgara tel ég rétt að þessum foreldrum verði veitt undanþága þar til breyting á lögunum gengur í gegn sem dregur þetta óréttlæti til baka.
__________________________________________________

Til viðbótar:

Við erum aðilar að barnasáttmála S.Þ. þar sem segir í 3. gr. 1. "Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn." Auk fleiri greina sem kveða á um rétt barna.

"Ég á rétt á að vera með bæði mömmu og pabba": segir á heimasíðu umboðsmanns barna um réttindi 0-7 ára barna.

Ræða KJúl um málið á alþingi 8.febrúar 2006