miðvikudagur, janúar 25, 2006

Gulli með frábært kombakk

Um nokkurt skeið hefur það verið sérstakt áhugamál mitt að fylgjast með ræðum Guðlaugs Þ. Þórðarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa í Reykjavík fyrir sama flokk - í þinginu. Ástæðan er sú að hann er einstaklega laginn við að snúa ræðum um hin ýmsu mál upp í ræðu um Reykjavíkurborg og Reykjavíkurlistann. Hann er með rólegan aðdraganda að því en bamm áður en þú veist af þá er ræðan hans farin að snúast um stjórnvöld í Reykjavík. Þá er gaman að því hvernig ræður hans geta tekið U-beygju ef hann bara sér Ingibjörgu Sólrúnu ganga í þingsal þegar hann er í miðri ræðu.

Það hefur þó farið lítið fyrir þessu hjá Guðlaugi nú í haust. Það er sosem ekkert óeðlilegt að hann hætti að tala um stjórnvöld í Reykjavíkurborg í þinginu nú þegar Guðlaugur hefur ákveðið að hætta í borgarstjórn. Því var ég farin að halda að hann hefði látið af þessu fyrir fullt og allt - mér til mikilla vonbrigða auðvitað því þetta getur verið ævintýralega skemmtilegt.

Því verð ég að viðurkenna að ég gladdist mjög - flissaði og skríkti í sæti mínu - í þingsalnum á mánudagskvöldið í miðjum þungum umræðum um Ríkisútvarpið hf. þegar Guðlaugur tók til máls í andsvari við formann Samfylkingarinnar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Með meistarlegum töktum sneri hann ræðu sinni frá frumvarpi um Ríkisútvarpið hf. og fór að ræða stjórnunarhætti innan Reykjavíkurborgar. Ég verð að viðurkenna að það heyrðist lítið "Yesss" úr sætinu mínu yfir þessu frábæra kombakki Gulla borgarfulltrúa minnihlutans í Reykjavík í ræðustól alþingis. Hann hélt síðan uppi uppteknum hætti í gær í umræðum um skipan starfshóps um starfsnám á vegum menntamálaráðherra. Þið sjáið kannski ekki tenginguna en það gerir Gulli.

Guðlaugur hefur komið sterkur inn í vikunni með kunnuglega takta sem eru að verða allt að því vinalegir bara. Manni þykir orðið vænt um þetta tuð hans og biturð útí stjórnvöld í Reykjavík. Og svo virðist sem Gulla þyki gott að blása dáldið út kergju og reiði sinni í ræðustól alþingis og því á hann bara að gera það. Við hin getum alveg beðið með umræðuna hverju sinni á meðan.

mánudagur, janúar 23, 2006

Heilbrigðir unglingar

Fór í bláfjöll á skíði á föstudagskvöldi nú um síðustu helgi. Mikið var það aldeilis frábært alveg, fínt færi og gott skyggni. Gömlu stórsvigsskíðin stóðu vel fyrir sínu. Þau eru 195 á hæð eða 25 c.m. hærri en ég sem þótti nú aldeilis fínt hér á árum áður - þá var best að vera á sem lengstum skíðum ef maður var vanur skíðamaður. Núna hins vegar eru flestir komnir á svokölluð Carverskíði (eða Curver - kann ekki að fara með það) og þau hafa styst talsvert - læt það þó ekki á mig fá heldur skíða ótrauð áfram á lengjunum mínum með beygluðu stafina!

Ég fer líka á snjóbretti og er búin að eiga eitt slíkt - sama brettið - í 18 ár og það stendur sig líka alveg frábærlega. Var búin að gleyma því hversu fljótt svona búnaður "úreldist", það eru heldur betur tískusveiflur í þessu eins og öðru. Tískueltarinn sem þetta skrifar ætlar þó ekki að láta þetta á sig fá og skíðar nú samkvæmt mottóinu: Allt sem er gamalt er gott!

Það vakti þó athygli mína í þessari skíðaferð í bláfjöllin hversu mikið af unglingum þar var saman kominn á föstudagskvöldi - en fólk undir tvítugu var mikill meirihluti gesta. Ungmenni streymdu í fjöllin hvort sem var á skíði eða snjóbretti og mynduðust langar raðir alveg þar til síðasti stóllinn fór upp fyrir lokun. Það geislaði af þeim hreystið og gleðin yfir langþráðri opnun á svæðinu. Þetta fékk mig til að hugsa hversu oft maður heyrir neikvæðar fréttir af unglingum. Af hverju er ekki fjallað um allan þann fjölda unglinga sem streymir í fjöllin til að iðka afar góða og heilbrigða útiveru og það á föstudagskvöldi?!

Það er alltaf fjallað um unglinga eins og þeir séu allir eins og ef einn misstígur sig í 100 manna hópi séu allir hinir í bráðri hættu. Mér finnst umfjöllun um unglinga alltof neikvæð. Unglingar eru ekki allir eins - þeir eru flestir sterkir og heilbrigðir einstaklingar. Um það á að fjalla meira um leið og fjallað er um töfra unglingsáranna sem eru einstakur tími sem kemur ekki aftur.

sunnudagur, janúar 22, 2006

Íhaldið sefur – Samfylkingin setur leikskólamálin í forgang

- grein birt í janúarútgáfu Kópavogsblaðsins

Sofandaháttur bæjaryfirvalda í Kópavogi í málefnum leikskólanna nú í haust hefur verið með hreinum ólíkindum. Foreldrar á nokkrum leikskólum hér í bæ hafa nú í allt haust þurft að vera heima með börnum sínum á nokkurra daga fresti vegna skorts á starfsfólki. Þetta hefur í för með sér mikið rask fyrir börnin, mikið álag á það starfsfólk sem fyrir er á leikskólunum, vinnutap fyrir foreldra og rask fyrir þau fyrirtæki sem foreldrarnir starfa hjá. Íslenskt samfélag krefst þess í dag að báðir foreldrar vinni úti. Leikskólarnir eru hluti af grunnþjónustu sveitarfélaganna og á að vera forgangsmál að hafa þá starfhæfa. Íhaldið og framsókn í Kópavogi virðast þó ekki líta svo á því það er ekki fyrr en mörgum mánuðum eftir að manneklan fór að hafa ofangreind áhrif á starfsemi leikskólanna sem bæjaryfirvöld rumska.

Bæjarstjóri íhaldsins á móti launahækkunum
Starfsmannavelta í leikskólum er alltof mikil. Í desember 2004 var hún samkvæmt upplýsingum á vef hagstofunnar, alls 23%, þar af 30% meðal ófaglærðra og 7% meðal faglærðra leikskólakennara. Til þess að aukinn stöðugleiki verði í rekstri leikskólanna verður að minnka þessa starfsmannaveltu. Tvennt þarf þar að koma til; í fyrsta lagi er löngu tímabært að launin verði hækkuð fyrir þessi störf og í öðru lagi verður að fjölga þeim sem gera störf á leikskólum að ævistarfi. Þessu áttar borgarstjórinn í Reykjavík sig á og hefur því hækkað laun hinna ófaglærðu, hafið viðræður við faglærða um launakjör þeirra og sent menntamálaráðherra bréf og hvatt til þess að fleiri séu teknir inn í leikskólakennaranám. Hvað gerðu bæjaryfirvöld í Kópavogi á meðan með bæjarstjórann Gunnar Birgisson í broddi fylkingar? Nákvæmlega ekkert var gert til að leysa málin hér. Bæjarstjórinn í Kópavogi gagnrýndi harðlega launahækkanirnar í Reykjavík og lýsti sig algerlega mótfallinn þeim.

Menntamálaráðherra íhaldsins sefur þyrnirósarsvefni
Á haustönn 2004 var helmingi umsækjenda um leikskólakennaranám í Kennaraháskólanum vísað frá vegna takmarkaðra fjárheimilda. Í umræðum utandagskrár á alþingi nú í byrjun nóvember kallaði ég eftir því að fleiri yrðu teknir inn í leikskólakennaranámið. Svör menntamálaráðherra gáfu það skýrt til kynna að það væri ekki á dagskrá. Hún sefur því þyrnirósarsvefni líkt og íhaldið í Kópavogi gagnvart málefnum leikskólanna. Eitthvað eru bæjaryfirvöld að rumska nú eftir áramótin þegar ástandið í starfsmannamálum leikskóla Kópavogs hefur enn versnað og hávær mótmæli hafa verið í bænum vegna ástandsins.

Þurfum varanlegar lausnir
Alltof lengi hefur starfsmannavandinn á leikskólunum verið afgangsstærð hér í Kópavogi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur bara engan áhuga á þessum málaflokki. Það hefur berlega komið í ljós nú í haust því á meðan vandinn hefur vaxið hefur bæjarstjórinn ekkert gert þó fyrirséð væri að vandinn myndi vaxa enn nú um áramótin. Bæjarstjórinnleggur þó mikla vinnu í undirbúa byggingu nýrra óperu- og íþróttahalla fyrir fleiri milljarða á sama tíma og leikskólabörnin, foreldrar þeirra og starfsmenn leikskólanna búa við vanrækslu af hans hálfu. Það er kominn tími til að varanlegar lausnir verði fundnar í starfsemi leikskólanna, það er ekki nóg að byggja þá það verður að hlú að innra starfinu.

Samfylkingin ætlar að breyta
Í vor verður kosið í sveitarstjórnarkosningum. Ég hvet bæjarbúa til að kjósa þau öfl sem ætla að sinna leikskólamálunum hér og hafa sýnt það í verki. Það hafa bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar gert í bæjarstjórn og bæjarráði í allt haust með málflutningi sínum og tillögugerð en talað fyrir daufum eyrum. Það er ekki nóg að rumska rétt fyrir kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa stjórnað bænum í 16 ár og hafa á þeim tíma vanrækt skyldur sínar gagnvart öllum þeim sem að leikskólunum koma. Nú er komið nóg. Samfylkingin ætlar að leggja áherslu á bættan aðbúnað leikskólasamfélagsins. Tími Samfylkingarinnar við stjórn bæjarins er kominn.