fimmtudagur, maí 25, 2006

Klaufalegar eftirlíkingar sjálfstæðismanna!

Fyrir þessar kosningar vilja allir flokkar vera vera jafnaðarmenn. Meira að segja svartasta íhaldið er orðið bleikt og farið að reyna að selja sig sem flokk sem skilur mikilvægi ýmissa samfélagslegra verkefna. Öðruvísi mér áður brá! En kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins verða seint kölluð annað en klaufalegar eftirlíkingar úr stefnu okkar jafnaðarmanna, jafnvel skrumskælingar. Það er svo skrítið hvað hægrimennirnir verða alltaf hlægilegir þegar þeir korteri fyrir kosningar gerast sósíalistar. Eitthvað svo raunarlega trist við það. Meira að segja svartasta íhaldið yst af hægri kantinum ramblar upp úr rullunni einsog gamall Maóisti.

Jafnaðarmenn byggðu upp leikskólana
Þessi staðreynd kristallast best í loforðum Sjálfstæðisflokksins í málefnum leikskólans. Það er nefnilega staðreynd að það vorum við jafnaðarmenn sem bjuggum leikskólastigið til. Næsta verkefni er að gera leikskólann gjaldfrjálsan og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans. Tillögum okkar um gjaldfrjálsan leikskóla svarar íhaldið með loforðum um afslætti. Tillögum okkar um hvernig brúa á bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla svarar íhaldið með vöggustofum.

Gjaldfrelsi vs. afsláttur
Auðvitað er ekki hægt að taka íhaldið alvarlega í þessum efnum því stutt er síðan sjálfstæðismenn vildu frekar senda konur heim með börnin og nokkrar krónur frá sveitarfélaginu en að stofna leikskóla. Samfylkingin hefur unnið að eflingu leikskólastigsins af heilum hug frá því að Reykjavíkurlistinn tók við rústunum í Reykjavík. Árangurinn blasir við okkur en enn er verk að vinna. Nú ætlar Samfylkingin um allt land að gera leikskólann gjaldfrjálsan því það er ekkert réttlæti í því að borgað sé miklu meira í skólagjöld með litlu börnunum en gert er í einkareknum háskólum landsins. Afslættir sjálfstæðismanna eru einungis klaufaleg eftirlíking.

Felldu tillögu um lækkun leikskólagjalda
Að hlusta á sjálfstæðismenn fara í gervi jafnaðarmanna í kosningabaráttunni er samt dáldið krúttlegt á köflum því svo klaufalegt er það. Í mínum heimabæ Kópavogi hefur Sjálfstæðisflokkurinn kúvent í stefnu sinni í málefnum leikskólanna og lofar m.a. afslætti af skólagjöldum. Hljómar það eins og lygasaga í ljósi þess að einungis eru nokkrir mánuðir síðan að sjálfstæðis- og framsóknarmenn felldu tillögu Samfylkingarinnar um lækkun leikskólagjalda í Kópavogi. Og stutt er síðan að Gunnar Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi hellti sér yfir borgarstjórann í Reykjavík fyrir að hækka laun leikskólastarfsmanna og fullyrti að við það myndi efnahagslífið fara á hliðina!

Vöggustofur eru úreld gæsluúrræði
Kosningaloforð sjálfstæðismanna um vöggustofurnar er algjört met. Líklega eiga þeir við það sem við jafnaðarmenn köllum ungbarnadeildir á leikskólum. Við samfylkingarfólk höfum lengi barist fyrir öruggum dagvistunarúrræðum fyrir yngstu börnin og eru vöggustofur svar íhaldsins við því nú fyrir þessar kosningar. Hvaðan hugmyndin að vöggustofum íhaldsins er komin skal ósagt látið en um vöggustofur er fjallað í Atómstöðinni eftir Nóbelsskáldið og segir Búi Árland í bókinni góðu þegar kallað er eftir vöggustofu: „Æjá því miður erum við á móti kommúnisma.“ Vöggustofur íhaldsins nú árið 2006 eru nefnilega gamalt gæsluúrræði kennt við kommúnista frá því snemma á síðustu öld og eiga lítið skylt við nútímadagvistunarúrræði.

Ég hvet kjósendur til að kjósa Samfylkinguna en ekki skrumskælda eftirlíkingu!