miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Cherie Blair - Þórsmörk - Veikindi

Fór og hlustaði á Cherie Blair á mánudagsmorguninn þar sem hún var að fjalla um stöðu og réttindi/réttindabaráttu kvenna í veröldinni á ráðstefnu menningarmálaráðherra af kvenkyni. Hún var auðvitað alveg frábær og var erindi hennar mjög áhugavert og til fyrirmyndar hvernig það var fram sett. Ég ætla nú ekki að endurtaka það hér enda hefur því verið gerð góð skil í fjölmiðlum undanfarna daga. En ég get ekki annað en skrifað nokkur orð um hversu heppnar við konur erum að eiga svona frábæran talsmann fyrir réttindum okkar. En hún hefur lengi barist fyrir bættum kjörum kvenna um heim allan og þegar hún flutti sitt erindi sá maður að hversu nærri hennar hjarta þessi mál standa.

Saga konu af heimilisofbeldi
Hún hefur í heimalandi sínu, Bretlandi, lengi barist gegn heimilisofbeldi og verið í fararbroddi samtaka sem vinna gegn heimilisofbeldi. Vorið 2001 fór ég ásamt félögum mínum Björgvini G. Sigurðssyni og Hreini Hreinssyni til London til að taka þátt í kosningabaráttu Verkamannaflokksins. Þrömmuðum við húsa á milli í kjördæmi sem heitir Fulham/Hammersmith í London í nokkra daga með boðskapinn (og bjagaðan breskan hreim). Ein heimsókn er mér afar eftirminnileg en við höfðum skipt okkur og fórum milli húsa og bönkuðum uppá til að hvetja fólk til að fara út og kjósa. Kem ég að húsi einu og banka - til dyra kemur kona sem þarf að styðja sig við tvær hækjur og mátti strax sjá að þarna var kona sem hafði lent í einhverju hræðilegu á ævi sinni því utan þess að styðjast við hækjur var hún alsett sýnilegum örum. Hún bauð mér inn og sagði mér sögu sína. Hún hafði verið gift manni sem beitti hana skelfilegu ofbeldi. Hún hafði reynt að leita til yfirvalda og fá hjálp en fékk ekki og var alltaf send heim og sagt að reyna að laga hjónabandið. Í örvæntingu sinni leitaði hún eitt sinn til þingmannsins síns sem þá var úr breska íhaldsflokknum og bað hann um aðstoð við að komast frá ofbeldisfullum manni sínum. Þessi ferð sagði hún að hafi verið ein mesta niðurlægingarferð sem hún hafi farið. Þingmaðurinn sendi hana heim og sagði að hann gæti ekkert gert - þetta væri mál sem þyrfti að leysa innan veggja heimilisins! Eftir áralangar barsmíðar lamdi eiginmaður þessarar konu hana svo illa að hún lenti þungt haldin á sjúkrahúsi og hefur stuðst við hækjur síðan þar sem hún mölbrotnaði og varð alvarlega fötluð í kjölfarið. Ég stóð inni hjá konunni og barðist við tárin og reiðina sem blossar uppí manni við að heyra af svona ömurlegum örlögum sem hefði verið hægt að grípa inní hefði einhver hlustað. Alltof algengt. Síðan sagði hún mér hversu margt hefði breyst í hennar lífi eftir að Verkamannaflokkurinn tók við. Fyrir hana sem fórnarlamb heimilisofbeldis hafði líf hennar tekið stakkaskiptum fjárhagslega og andlega þar sem hún fær nú mikinn stuðning. Allt þetta þakkaði hún Cherie Blair sem hún sagði að hefði lyft umræðunni um heimilisofbeldi uppá annað stig - stig þar sem tekið er mark á konum sem fyrir því verða. Hún sagði mér síðan frá því hvernig Cherie Blair hefði unnið gegn heimilisofbeldi og þakkaði henni það að umræðan færi nú fram fyrir opnum tjöldum og hægt væri að leita sér aðstoðar og stuðnings. Hún þakkaði henni þó aðallega að stjórnmálin væru nú farin að fjalla um heimilisofbeldi sem samfélagslegan vanda ekki vanda heimilanna sjálfra.

Ég hafði ekki velt Cherie Blair mikið fyrir mér fram að þessari heimsókn - var einlægur aðdáandi manns hennar. En uppfrá þessari heimsókn fékk ég algerlega nýja sýn á þessa merku konu og hef verið einlægur aðdáandi hennar sjálfrar og tel að maður hennar væri ekki mikið án hennar! Örlát kona með hjartað á réttum stað.

Þórsmörk
Fór í aldeilis frábæra ferð í Þórsmörk á laugardaginn síðasta. Tilefnið var árleg sumarferð Samfylkingarinnar. Fengum alveg dásamlegt veður - sól og blíða - frá því við lögðum af stað klukkan átta um morguninn og þar til við komum í bæinn um klukkan tíu um kvöldið. Ég hef aldrei séð Þórsmörkina í svo fallegu veðri. En svo mikil stilla var að þegar við komum akandi að Seljalandsfossi sáum við inní Vestmannaeyjabæ og það var eins og land og eyjar væru eitt því sjórinn var alveg spegilsléttur. Okkur leið eins og við gætum keyrt yfir. Milli þrjú- og fjögurhundruð manns fóru í ferðina og fylltum við átta rútur. Þetta var alger úrvalsfélagsskapur. Farið var í gönguferðir, grillað og brugðið á leik. Eins og sjá má af þessum skrifum er ég enn í skýjunum yfir ferðinni. SJÁ MYNDIR....

Veikindi

Júlíus fór loksins í skólann í morgun en hann er búinn að liggja veikur síðan s.l. miðvikudag. Hann fór í skólann þann dag, sem var fyrsti dagurinn hans en lagðist í magapest um kvöldið. Greyið var ferlega spældur að missa af 4 dögum í byrjun skólagöngunnar og var því himinlifandi að hitta vinina í morgun. Þetta var engin smápest sem olli því að litla flísin missti 10% af líkamsþyngd sinni! Við enduðum síðan á sjúkrahúsi á sunnudaginn þar sem hann þurfti að fá vökva í æð þar sem hann var orðinn alveg þurr og tómur því hann hélt engu niðri. En hann er orðinn eldhress núna og hans aðalvandamál er histerísk móðir hans sem er endalaust að reyna að troða ofan í hann mat!

Hafði aldrei áður komið á barnaspítalann og verð að segja að það sem ég sá af honum er stórglæsilegt. Fallegt og þægilegt umhverfi og úrvalsþjónusta við yngstu borgarana. Vil því nota þetta tækifæri og þakka hjartanlega fyrir okkur!

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Litli stúdentinn og rándýr skólagangan

Í gær byrjaði skólinn hjá syni mínum samkvæmt stundaskrá. Þetta var mjög skrýtinn dagur - gekk klökk út úr skólanum eftir að hafa fylgt honum þangað árla morguns. Ég var að senda barnið mitt út í hinn stóra heim! Hann var voða glaður eftir daginn og ég er ekki frá því að honum hafi verið nokkuð létt þar sem mikið hafði verið látið með þetta og hann búinn að bíða lengi. Ég er að rifna úr stolti eins og fjölskyldan öll. Hann er ekki kallaður annað en litli stúdentinn þessa dagana og ber þá nafnbót svo sannarlega með sóma á sinn eigin yndislega hátt:)

Það er þó ekkert grín að senda 6 ára barn í skóla. Fyrir utan tilfinningasveiflur yfir þessum merku tímamótum þá er þetta rándýrt. Í fyrsta lagi þarf að kaupa skólatösku sem ekki kostar neina smáaura fyrir svona kríli. Síðan fær maður langan lista yfir hluti sem þurfa að vera í töskunni og get ég giskað á að startpakkinn sé ekki undir 12.000 krónum og geti farið uppí 20.000 krónur. ATH. þetta er fyrir eitt barn! Fyrir utan þetta þarf að klæða barnið upp, kaupa úlpu, vettlingana, húfuna, skóna, og ég veit ekki hvað og hvað svo barnið geti byrjað nokkuð snyrtilegt í skólanum og verði ekki kalt í íslensku vetrarveðri.

Hár mánaðarlegur kostnaður
Í þriðja lagi og síðast en alls ekki síst þá er mánaðarlegur kostnaður töluverður fyrir foreldra grunnskólabarna a.m.k. á yngsta stigi. Nærtækt dæmi: fyrir mig sem einstæða móður eru mánaðarlegar greiðslur til skólans nánast þær sömu og til leikskólans. Ég stóð í þeirri trú að þegar í grunnskólann væri komið kæmist maður útúr þessu gjaldabúri sem við foreldrar erum sett í af hinu opinbera. En ónei nei aldeilis ekki maður er enn fastur. Það sem greitt er fyrir er annars vegar heiti maturinn í hádeginu og hins vegar Dægradvöl eftir að kennsla skv. stundaskrá hættir klukkan 13.15. Flest börn fara í Dægradvöl af því að flestir foreldrar vinna úti fullan vinnudag. Umhverfi barnafjölskyldna er þannig í íslensku samfélagi að allar fullorðnar hendur hvort sem eru tvær eða fjórar þurfa að vera uppi á dekki vinnumarkaðarins svo heimilið nái endum saman. Að auki þarf auðvitað að senda barnið með ávexti daglega og greiða fyrir mjólkina sérstaklega. Safnast þegar saman kemur.

Það er bara ekki í boði
Barnmargar fjölskyldur standa því frammi fyrir verulegum útgjöldum vegna skólagöngu barna sinna, lögbundinnar skólagöngu og mikilvægrar í þroskaferli þeirra sem einstaklingar. Það er blekking að grunnskólinn sé gjaldfrjáls því samanlagður kostnaður er gríðarlegur vegna skólagöngunnar. Foreldrar hafa lítið val því börnin þurfa góða tösku ef bakið á þeim á ekki að bogna undan henni, börnin þurfa að mæta með skólavörur í skólann svo þau geti tekið þátt í starfinu, börnin þurfa að vera sæmileg til fara svo þeim verði ekki kalt, börnin þurfa hádegismatinn bæði svo þau skeri sig ekki úr ef þau mæta ein með nesti og þau þurfa heita og væna máltíð svo þau haldi kröftum yfir daginn, yngstu börnin þurfa gæslu eftir hádegi þegar skólinn er búinn og foreldrarnir að vinna. Ekki er hægt að setja lykla um hálsinn á þessum krílum og láta þau ráfa um götur bæjarins eftir skóla. Það vill það enginn. Við viljum án ef flest okkar komast fyrr heim úr vinnunni á daginn og vera lengur með börnunum. Það er bara ekki í boði. Dægradvölin er því hluti af skólanum, mikilvægur hluti. Ég sé ekki að foreldrar hafi mikið val í þessu.

Álag á barnafjölskyldum
Það er mikið á barnafjölskyldur lagt í þessu landi. Margir kostnaðarliðir vega þungt í heimilisbókhaldinu einsog húsnæði, tannlæknar, matur, endurgreiðsla námslána svo fátteitt sé nefnt. En að skólaganga barnanna okkar sé svo stór kostnaðarliður í heimilisbókhaldinu í ofanálag finnst mér verulegt áhyggjuefni. Íslenskt samfélag er á rangri braut í málefnum fjölskyldna. Skólaganga á ekki að hafa sligandi áhrif á fjárhag fjölskyldna heldur vera ánægjuleg uppbygging kynslóða framtíðarinnar.

Frábært skólastarf - menntun í fyrstu sætin
Þó ég sé neikvæð hér fyrir ofan þá verð ég auðvitað að koma inná það að skólastarfið er algerlega frábært og mér líst afar vel á Dægradvölina og þá þjónustu sem þar er veitt. Sonur minn er afar ánægður og mamman líka því frábærir starfsmenn skólanna hugsa vel um börnin okkar úti í hinum stóra heimi skólanna. (Mín skoðun er líka sú að þessu góða fólki sé ekki borgað nógu vel fyrir störf sín en það er efni í löng skrif enn.)

Engin spurning að þetta er mál sem ég mun beita mínum kröftum í á þingi í þeirri veiku von að Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn hlusti (sem þeir gera alltof sjaldan). Treysti á ykkur að byrja að mótmæla þessu með mér því við eigum ekki að sitja þegjandi undir þessu. Ég vil samfélag þar sem menntun og sjálfsstyrking barna okkar er í fyrstu sætum yfir samfélagsleg verkefni án þess fylgifisks að fjárhag fjölskyldunnar sé sniðinn enn þrengri stakkur.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Fáránleg skömmtun réttinda til samkynhneigðra

Við Júlíus erum að fara í Gay Pride gönguna á eftir. Við erum voða spennt enda er þetta rosalega flott ganga og mjög skemmtilegt að upplifa. Mér finnst óvenju mikil umræða hafa orðið í aðrdraganda Gay Pride í ár um réttarstöðu samkynhneigðra í íslensku samfélagi. Því ber að fagna. Ég held að beitt grein Baldurs Þórhallssonar sem hann birti á vefritinum Sellan s.l. fimmtudag spili þar stóra rullu. Ég hvet alla til að lesa þessa grein. Mér hefur alltaf fundist afar undarlegt að samkynhneigðir njóti ekki sömu réttinda og gagnkynhneigðir. Samfélaginu er stýrt af gagnkynhneigðu fólki sem hefur hingað til gefið sér það að samkynhneigðir séu síðri uppalendur en gagnkynhneigðir. Þetta hefur birst í því að samkynhneigð pör mega ekki frumættleiða. Einstæðir mega það en ekki samkynhneigð pör. Samkynhneigð pör mega heldur ekki fara í tæknifrjóvgun til þess að geta barn - heldur verða að leita út fyrir landssteinana.

Samkynhneigð pör eru alveg jafnfær og einstæðir og gagnkynhneigð pör til þess að ala upp börn í okkar samfélagi. Að halda öðru fram eru fordómar af verstu sort. Grundvallaratriði er að börnin okkar fái að alast upp á öruggum og hlýjum heimilum og þá skiptir ekki máli hvernig samsetning fjölskyldunnar er. Borist hafa fregnir af því að nú ætli ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp/frumvörp nú á komandi haustþingi sem bæta eigi réttarstöðu samkynhneigðra. Samkvæmt fréttum ætlar ríkisstjórnin þó ekki að ganga alla leið og veita samkynhneigðum pörum sama rétta og öðrum. Það hryggði mig að heyra því ég tel ekki nokkur rök á bakvið það að veita sjálfsögð réttindi í smáskömmtum eins og verið sé að gera einhverja greiða og sýna vald sitt. Þannig hefur það verið hingað til - samkynhneigðum hafa verið skömmtuð réttindi úr hnefa þeirra sem með völdin fara. Þannig er illa farið með völdin og ekki frjálslyndu lýðræðisríki til sóma. Ég vona því að nú sé sá tími kominn að gengið verði alla leið í eitt skipti fyrir öll og vona að sú ríkisstjórn sem nú situr muni gera það. Réttindabarátta samkynhneigðra á minn stuðning heilann (get fullyrt að það sama eigi við um allan þingflokk Samfylkingarinnar) og mun ég leggja mig fram um að ná fram þeim sjálfsagða hlut að samkynhneigð pör hafi sama rétt og einstæðir og gagnkynhneigð pör!

Annars erum við Júlíus búin að eiga góða viku. Júlíus var í fótboltanum hjá HK hálfan daginn og þvældist síðan með mér eða lék við vini sína. Ég vann, setti upp þetta ágætis blogg, heimsótti vini, barðist við tölvuvírus, fór í ræktina, út að hlaupa og í strípur. Að fara í strípur er alltaf dálítið event fyrir mig bæði því ég fer alltof sjaldan (var orðin gulhærð núna) en þó aðallega vegna þess að hárgreiðslukonan er einnig ein mín besta og elsta vinkona Berglind Bragadóttir. Við Berglind eigum 21 árs vinkonuafmæli í september og hefur vináttan milli okkar alltaf verið sterk og einlæg. Við kynntumst fyrsta daginn okkar í 10 ára bekk í Snælandsskóla í Kópavogi en við vorum þá báðar nýjar í skólanum. Við höfum fylgst að allar götur síðan ásamt fleiri vinkonum sem bættust í hópinn í Menntaskólanum í Kópavogi. Við Berglind ætlum því að fagna þessum áfanga með því að fara grand út að borða og kannski eitthvað fleira í byrjun september. Halda uppá þennan merka áfanga. Ég hlakka óskaplega til enda ef tilefni er til að fagna einhverju þá er það góð vinátta!!

Eitt skemmtilegt atvik stendur einnig uppúr þessari viku. Ég mælti mér mót við minn gamla vin og félaga Hrein (útleggst á ensku: Mr.Fred) á Kaffitári í Bankastræti á fimmtudagsmorguninn klukkan 09.00. Ég hef ekki komið þangað síðan ég hætti að drekka kaffi fyrir einu og hálfu ári. Mikið rosalega var gaman þar í morgunkaffi. Staðurinn var eins og umferðamiðstöð. Allskyns fólk að sækja sér kaffi til að taka með á leið í vinnuna - mér leið einsog ég væri stödd í stórborg. Og það besta var að það sást ekki stress á neinum - var reglulega góður andi þarna. Ég hitti fjölmarga kunningja og lenti í skemmtilegum samtölum. (hitti meira að segja bæði Mörtu og Krísu þann klukkutíma sem ég sat þar - hverjar eru líkurnar?:))
Hvet alla til að skella sér í gönguna á eftir. Hún byrjar klukkan 15.00 við Hlemm.



miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Heilinn fór með gestinum

Við Júlíus áttum einstaklega ljúfan dag í dag. Hann fór í fótboltaskólann í morgun rétt fyrir 9 og ég fór að sinna vinnu minni við tölvuna heima. Það var svona eitt og annað sem ég þurfti að gera s.s. svara tölvupóstum ofl. Klukkan 11 kom síðan ljósmyndari frá einu blaðanna vegna lítils viðtals við mig sem birtist á morgun. Þegar hann var farinn þá var eins og heilinn á mér hefði farið með honum. (Er auðvitað ljóska og gæti sjálfsagt hafa truflast af flassinu;)) Anyways til að ná sambandi við tölvuna og ná fókus aftur ákvað ég að skella mér inn á zone.msn.com og spila einn tölvuleik. Við þetta hvarf klukkutími - já klukkutími og hefði ég ekki hrokkið í kút vegna þess að tími var til kominn að sækja Júlíus í fótboltann þá er ég viss um að dagurinn hefði getað horfið í þetta. Þetta kom því ekki bara niður á vinnunni hjá mér heldur var ég næstum búin að gleyma barninu líka!

Magnaðir svona þrautaleikir sem maður hreinlega hverfur inní. Ekki það að þeir eru stórskemmtilegir og nokkuð afslappandi - svo ég viðurkenni það nú alveg hreinskilnislega. Maður verður bara að vita þegar þeir eru opnaðir hvort maður geti séð af öllum þeim tíma sem í þetta fer. Annars er hætt við að eitthvað sem átti að hjálpa manni að slappa af og flýja veröldina í smástund - verði að einu stóru samviskubiti. **

Við Júlíus fórum síðan í stutta heimsókn til Þórlaugar og Kilians litla sem er pínulítil nýfædd rófa. Ég er ekki frá því að ákveðin hljóð hafi komið í ákveðna stokka í ákveðinni konu sem var í heimsókn á þessum ákveðna stað á þessum ákveðna tíma (uss uss - say no more say no more):)

Ræktin tók síðan við og fór Júlíus í barnapassið á meðan ég kláraði nýja prógrammið með þjálfaranum góða. Ég er alltaf með hálfgert samviskubit yfir því að skilja hann eftir á meðan ég sprikla. En barnið er hvergi ánægðara en í leikherbergi með fullt af öðrum krökkum og skemmtir sér konunglega. Skil því ekki af hverju þetta samviskubit kemur alltaf upp því hann klappar saman höndum og veiar þegar barnagæslan er nefnd. Verð því að setja það á markmiðalistann að losna við þetta króníska samviskubit sem engum gagnast sem fyrst!

Síðast og alls ekki síst fórum við Júlíus og hittum Ellý og strákana hennar á Salatbar Eika. Þar borðuðum við rosalega ljúffengan kvöldverð. Frábært hlaðborð sem allir finna eitthvað á og skilar manni mettum en léttum inní kvöldið. Félagsskapurinn var líka frábær og voru Ármann og Einar Alex svo sætir að lána Júlíusi magnað litasett með sér heim. Ungi maðurinn situr því núna og teiknar og litar eins og á akkorði myndir af löggubílum og öryggisgæslubílum (sem eru ekki síður mikilvægir bílar sko:))

**Fyrir þá sem vilja vita heitir umræddur leikur Zuma og er algert brill. Annars eru margir góðir leikir undir flipanum free webgames. Njótið og ekki skamma mig þegar tíminn hverfur - ég varaði ykkur við!

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Einkasonurinn á leið í skóla

Rosalega líður tíminn hratt. Mér finnst svo stutt síðan að Júlíus var kornabarn og nú er hann að byrja í Snælandsskóla 22.ágúst. Fórum því í dag og keyptum skólatösku og aðrar nauðsynjar fyrir skólagöngu 6 ára barns. Úff það kostaði sitt en litli kútur var svo glaður með dótið sitt að brosið hans og sönglið gerði þetta vel þess virði. Hann er rosalega spenntur að byrja þó að mamman sé dáldið kvíðin - hann er jú lillinn minn!. Þetta eru merkileg tímamót í sögu okkar litlu fjölskyldu þannig að þessi mánuður mun án efa varðveitast í minningunni sem skólamánuðurinn mikli.

Júlíus byrjaði aftur í fótboltaskóla HK í morgun. Þegar ég var búin að fylgja honum í Fagralundinn í Fossvoginum fór ég og hljóp einn hring í Fossvogsdalnum. Það var alveg frábært þrátt fyrir grenjandi rigningu. Kom heim rennandi blaut en ótrúlega fersk. Hlaupin eru liður í átakinu sem ég er búin að vera í síðustu mánuði. Átakið gengur vel og finnur maður það ótrúlega fljótt hversu vel gott mataræði og fjölbreytt hreyfing skilar sér á líkama og ekki síður sál. Seinnipartinn fór ég í ræktina og hitti þjálfara sem fór með mér yfir stöðuna og kenndi mér fleiri æfingar í tækjum. Það var mjög gott og uppörvandi að hitta fagmann á þessu sviði og bæta þannig við þekkinguna. Mæli hiklaust með þessu!

Tókum síðan rólegt kvöld mæðgin og fórum snemma að sofa enda langur dagur framundan í vinnu og fótbolta.