fimmtudagur, september 21, 2006

Gef kost á mér í 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi!

Ákveðið hefur verið að velja á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi með stuðningsmannaprófkjöri þann 4.nóvember n.k. Fyrirsjáanlegar eru þónokkrar mannabreytingar þar sem leiðtogar jafnaðarmanna til margra ára hér í kjördæminu þau Guðmundur Árni Stefánsson og Rannveig Guðmundsdóttir gefa ekki kost á sér til setu á Alþingi að nýju.

Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti framboðslistans fyrir næstu alþingiskosningar. Ég hef setið á Alþingi síðan 2003. Fram að þeim tíma hafði ég sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innan jafnaðarmannahreyfingarinnar. Sat m.a. í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar á árunum 2000 – 2003 þar af sem varaformaður frá 2001-2003 og var formaður Ungra jafnaðarmanna – ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar 2000-2001. Auk þessa sat ég í stjórn Evrópusamtakanna um nokkurra ára skeið, sat í háskóla- og stúdentaráði fyrir Röskvu frá 1997 til 1999 og starfaði sem framkvæmdastjóri stúdentaráðs 1998 – 1999. Áður en ég hóf störf á Alþingi starfaði ég sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá hugbúnaðarhúsinu Innn hf. um þriggja ára skeið. Áður hafði ég starfað sem innkaupastjóri og síðar framkvæmdastjóri hjá heildverslun í verslunarrekstri.

Í störfum mínum á Alþingi hef ég barist fyrir bættum lífskjörum barnafjölskyldna sem núverandi ríkisstjórn hefur markvisst rýrt á undanförnum árum. Ég hef barist fyrir bættum kjörum eldri borgara, námsmanna og öryrkja. Ég hef barist fyrir kröftugri uppbyggingu í menntakerfinu. Ég hef barist fyrir auðlindum í þjóðareign. Ég hef barist fyrir aukinni samvinnu við Evrópu með fulla aðild að ESB í huga. Þá hef ég barist gegn vaxandi misskiptingu sem birtist í misskiptum kaupmætti og misskiptum skattalækkunum, þar sem þeir allra tekjuhæstu hafa fengið allra mest. Þessari misskiptingu verður að linna. Ég býð fram krafta mína til áframhaldandi starfa í baráttu okkar jafnaðarmanna fyrir sanngjörnu og góðu samfélagi.

þriðjudagur, september 12, 2006

Billegar yfirlýsingar og misskipting

Ég var í viðtali í Íslandi í bítíð í gær með Guðlaugi Þór Þórðarsyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Guðlaugur er einn þeirra sjalla sem trúir í blindni á þá hugmynd að ef lygi er sögð nógu oft verði hún sönn. Þannig hélt hann því fram (og það ekki í fyrsta sinn) að ef stjórnarandstöðuflokkarnir tækju hér við landsstjórninni eftir næstu kosningar þýddi það skattahækkanir og óstjórn í efnhagsmálum. Þetta er í besta falli hlægileg staðhæfing í ljósi þess að sýnt hefur verið framá að skattbyrði hefur verið aukin svo um munar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eini hópurinn sem ekki hefur fengið hækkaða skattbyrði heldur lækkaða er 10%-in sem hæstar hafa tekjurnar. Þetta hefur verið staðfest í svari frá fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur í þinginu. Sjá svarið hér

Varðandi óstjórn í efnahagsmálum. Þá er Guðlaugur Þór á ansi hálum ís að halda því fram að önnur ríkisstjórn en sú sem nú situr myndi kalla yfir okkur óstjórn í efnhagsmálum. Þetta segir Guðlaugur á sama tíma og viðskiptahallinn er að slá hvert metið á fætur öðru (væri vert að kanna hvort ekki sé um heimsmet að ræða) og er hann sá hæsti innan OECD ríkjanna. Hér er bullandi verðbólga sem hefur hrikaleg áhrif á húsnæðislánin sem bólgna nú út vegna verðtryggingarinnar á meðan lítil hreyfing er á fasteignum og fasteignaverði. Krónunni hefur verið líkt við korktappa úti á ólgusjó og hafa sveiflurnar farið í 40% - það þarf ekki að fara yfir það hvað þetta þýðir fyrir útflutningsgreinarnar og vöruverð í landinu. Svona er hægt að halda endalaust áfram í yfirferð yfir afleiðingar efnhagsstjórnar ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks: allsstaðar blasa mistökin við. Af mistökunum súpa Íslendingar nú seyðið og greiða m.a. fjórum sinnum hærri vexti en í Evrópu og tugum prósenta hærra verð fyrir nauðsynjavörur auk þess að horfa nú á eign sína í íbúðarhúsnæði sínu skreppa saman dag frá degi - ævisparnaður unga fólksins sem það hefur lagt í húsnæði minnkar dag frá degi.

Hægt að lækka matarverð á morgun
Merkilegt fannst mér líka hvað Guðlaugur var brattur þegar hann lýsti því yfir að ekkert mál væri að lækka matarverð á morgun. Voru þetta viðbrögð hans við því að ég var að ræða um stórlækkun matarverðs í Svíþjóð eftir að svíar gengu inn í ESB. Í hvaða flokki hefur Guðlaugur eiginlega verið? Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað landinu í bráðum 12 ár með Framsóknarflokknum og ekki hreyft litla fingur til að lækka matarverð hér á landi. Þessir flokkar hafa haft alla möguleika í hendi sér að lækka matarverðið en ekki gert það. Lofaði ekki Sjálfstæðisflokkurinn því að lækka matarskattinn á þessu kjörtímabili – það loforð hefur ekki verið efnt. Í ljósi þessa finnast mér yfirlýsingar hans billegar og bera það eina merki að Guðlaugur sé á leið í prófkjör – engin merki eru nefnilega á lofti um að þessi ríkisstjórn muni standa fyrir aðgerðum til lækkunar á matarverði nú frekar en fyrri daginn.

Ekki vil ég nú bara draga fram neikvæðar hliðar viðtalsins því eitt sagði Guðlaugur Þór sem má hrósa honum fyrir og það er að hann tók undir það að hér á landi væri misskipting og sagði: "Það liggur alveg fyrir að það er misskipting" – og jánkaði því auðvitað að enda væri Sjálfstæðisflokkurinn ekki jafnaðarmannaflokkur.

"Velferðarstjórn" Framsóknarflokksins

Á nýliðnu flokksþingi Framsóknarflokksins hélt Halldór Ásgrímsson sína síðustu yfirlitsræðu sem formaður þess flokks. Orð sem hann lét þar falla hafa staðið nokkuð í mér. Í ræðunni fullyrti Halldór nefnilega að velferðarstjórn væri réttnefni á stjórnarsamstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Ekki veit ég hvort Halldór hafi verið að slá á létta strengi svona í lok ferils síns eða hvort framsóknarmenn séu svona illa haldnir af ranghugmyndum því ekki hafa verk ríkisstjórnarinnar gefið til kynna að þar fari velferðarstjórn. Hið síðara er öllu verra því það gefur okkur fyrirheit um það sem koma skal haldi samstarf þessara flokka áfram – fyrirheit um áframhaldandi misskiptingu.

Velferð hinna fáu
Mér þykir illa farið með hugtakið velferðarstjórn þegar það er notað í samhengi við ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks því aldrei hefur ójöfnuðurinn verið meiri í íslensku samfélagi en einmitt nú eftir áralanga stjórnarsetu þessara flokka eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað bent á. Eftir þessa ríkisstjórn stendur nefnilega samfélag þar sem ójöfnuðurinn er orðinn hrópandi og getur ekki dulist nokkrum manni. Afleiðingar stjórnvaldsaðgerða þessarar ríkisstjórnar bera ekki velferðarstjórn nokkuð vitni nema þá kannski velferð hinna fáu.

Misskiptingarstjórnin
Eftir þessa ríkisstjórn stendur misskipting – misskiptingarstjórn er því réttnefni yfir þessa ríkisstjórn. Misskiptingunni hefur að stórum hluta verið stýrt í gegnum skattkerfið en með markvissum aðgerðum hefur ríkisstjórnin lækkað skatta á þá sem hafa allra hæstu tekjurnar á meðan skattbyrði á hin 90% heimilanna í landinu hefur hækkað – þá allra mest hjá hinum tekjulægstu. Þessar upplýsingar liggja allar fyrir. Þá hafa vaxtabætur og barnabætur verið skertar á sama tíma. Þetta þýðir að sú aukning kaupmáttar sem ríkisstjórnin hefur barið sér á brjóst fyrir hefur misskipst þannig að aukningin er 27% hjá lágtekjuhópunum - jafnvel enn lægri á lífeyrisþegum- en 78% hjá þeim allra tekjuhæstu. Þetta eru ekki ummerki velferðarstjórnar heldur misskiptingarstjórnar.

Tvöfalt heilbrigðiskerfi
Afleiðingar verka þessarar ríkisstjórnar misskiptingar koma harkalega niður á fjölskyldum í landinu. Aldrei hefur verið jafn dýrt að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Og nú er verðbólgan í tæpum 9% vegna efnahagsmistaka þessarar ríkisstjórnar. Unga fólkið sem öllu var lofað fyrir síðustu kosningar horfir því uppá húsnæðislánin bólgna út dag frá degi með tilheyrandi lífskjararýrnun. Vextir eru margfalt hærri hér en í nágrannalöndunum og verðlag á nauðsynjavörum er tugum prósenta hærri hér en í nágrannalöndunum eftir 11 ára stjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Stór hluti eldri borgara og öryrkjar þurfa að lifa á skammarlega lágum launum sem í ofanálag þeir þurfa að greiða skatt af vegna þess að misskiptingastjórnin frysti skattleysismörkin á meðan hún lækkaði skattana á þá sem hafa allra hæstu tekjurnar í landinu. Og nú hefur ríkisstjórnin með Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar staðfest með reglugerð vísi að tvöföldu heilbrigðiskerfi. Því nú eru hjartalæknar utan samninga og geta sjúklingar borgað sig framfyrir og sloppið við tafsamt tilvísanakerfi hafi þeir efni á því. Þetta eru ekki ummerki velferðarstjórnar heldur misskiptingarstjórnar.

Af þessu er ljóst að Framsóknarflokkurinn er stefnulaust rekald og alls ekki til þess bær að vera við stjórnvölinn áfram.


Greinin birtist í Blaðinu í dag