föstudagur, september 23, 2005

Nú þarf alvöru lausnir ekki plástra!

Mikið hefur verið um að vera síðustu vikur bæði í flokksstarfi Samfylkingarinnar og í undirbúningi fyrir þingið sem hefst aftur þann 1.október n.k. Síðan ég bloggaði síðast hefur verið stofnuð kvennahreyfing Samfylkingarinnar, stofnuð ungliðahreyfing í Mosfellsbæ og mánudagsfundir hjá Samfylkingunni í Kópavogi komnir af stað aftur.

Stofnfundur kvennahreyfingarinnar var haldinn á Hótel Örk síðustu helgi og voru á annað hundrað konur þátttakendur í þeim frábæra fundi. Starf kvennahreyfingarinnar er komið á gott skrið og vil ég benda á vefsíðu sem hefur verið opnuð á slóðinni www.kvennahreyfing.net. Þar munum við samfylkingarkonur skrifa um þau málefni sem helst á okkur brenna hverju sinni auk þess sem talsvert af upplýsingum verður þar að finna.

Ungir jafnaðarmenn stofnuðu félag í Mosfellsbæ s.l. þriðjudag. Samfylkingin mun nú bjóða fram í fyrsta sinn ein og sér í bænum í sveitastjórnarkosningunum í vor. Það var því mikill hugur í mönnum á fundinum og voru sex öflugir einstaklingar kosnir í fyrstu stjórn félagsins. Á fundinum lýstu margir áhyggjum sínum af stöðu dagvistunarmála þar í bæ. Þar er uppi sama staða eins og við höfum heyrt af t.d. í Kópavogi þar sem vantar verulega uppá fjölda starfsmanna til að halda uppi fullri þjónustu við börnin í bænum. Álagið á starfsmenn er því mikið og aðstæður allar alls ekki nógu góðar hvorki fyrir börnin eða starfsmennina.

Hækkum launin
Það hefur óþolandi plástrapólitík verið rekin þegar kemur að dagvistunarmálunum. Ár eftir ár er sami vandi að koma upp bæði á leiksskólunum og á frístundaheimilum grunnskólanna, það vantar fólk og það vantar fólk. Sumsstaðar eru aðstæður svo slæmar að það vantar líka almennilegt húsnæði til að reka þessa mikilvægu starfsemi og það veldur enn meira álagi á starfsmenn og börn sem þar starfa. Stjórnvöld á hverjum stað koma þá fram með reddingar til að fleyta starfinu áfram yfir veturinn en sami vandi kemur síðan alltaf upp aftur.

Firrt gildismat

Við erum öll sammála um nauðsyn þess að reka leikskóla og frístundaheimili. Það er hluti af okkar samfélagi og daglega lífi. Við erum líka öll sammála um að við eigum úrvalsfólk sem þar starfar og við viljum halda því þannig. Ég spyr því hvenær ætla stjórnvöld - bæði í ríkis- og sveitastjórnum - að finna framtíðarlausn svo leiksskólar og frístundaheimili geti starfað með eðilegum hætti? Meðal þess sem verður að gera er að auka möguleika fólks til að fagmennta sig á þessu sviði og hækka launin. Laun þeirra sem starfa með börnunum okkar eru skammarlega lág. Mér finnst þetta lýsa mjög firrtu gildismati. Vegna þess að það góða fólk sem sinnir börnunum okkar með frábæru starfi allan daginn á meðan við vinnum á ekki að vera á lægstu laununum. Þarna er eitthvað verulega mikið að í forgangsröðuninni.

Hvað er það mikilvægasta í lífi okkar og fyrir framtíð þessa þjóðfélags? Það eru jú börnin okkar. Förum þá að sýna það í verki og hefjum störf þeirra sem starfa með börnunum okkar upp til vegs og þeirrar virðingar sem þau eiga skilið!

Ég skora á ríki og sveitarfélög að taka höndum saman og finna framtíðarlausn í sameiningu. Það er eina leiðin.

fimmtudagur, september 08, 2005

Vond ákvörðun hjá Þorgerði Katrínu að leggja Listdansskóla Íslands niður

Fyrir skömmu lýsti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra því yfir að nýhafinn skólavetur yrði sá síðasti í sögu Listdansskóla Íslands. Þessi yfirlýsing kom okkur öllum í opna skjöldu og hafa þeir aðilar sem að listdansnáminu standa sem og Bandalag íslenskra listamanna mótmælt vinnubrögðum ráðherrans harðlega. Ekkert samráð var haft við fagaðila og ekki liggur fyrir hvað verður um listdansnámið í heild sinni - einungis að hluta þess verði fyrirkomið í framhaldsskólunum. Þetta verða að teljast afar vond vinnubrögð að leggja niður lífæð listdanssins í menntakerfinu án þess að fyrir liggji hver framtíð námsins verður.

Ég sótti opinn fund sem haldinn var um málið í LHÍ s.l. mánudagskvöld og var þar afar heitt í fólki og mikill uggur vegna málsins. Foreldrar barna í skólanum lýstu áhyggjum sínum sem og börnin sjálf auk listdansara og annarra listamanna sem vel til málsins þekkja.

Hvert fer grunnnámið?
Listdansskóli Íslands hefur gegnt mikilvægu hlutverki í menntun listdansara á Íslandi. Þangað geta dansarar framtíðarinnar sótt sína menntun frá unga aldri. Þorgerður Katrín hefur ekki sagt þessum ungu krökkum sem eru á grunnskólaaldri og hafa ákveðið að leggja fyrir sig listdans hvert þau geti sótt menntun sína á því sviði á næsta ári. Það er ömurleg staða fyrir þessa krakka sem eiga sér stóra drauma og hafa fundið sig í listdansinum. Þessir krakkar verða að fá svör frá ráðherranum.

Sérstaða skólans mikil
Það er ruglingsleg framtíðarsýn fyrir listdansnámið ef koma á því fyrir innan veggja grunn- og framhaldsskólanna eins og þeir eru í dag. Í fyrsta lagi vegna þess að kraftar stéttarinnar myndu dreifast óþarflega. Í öðru lagi vegna þess að námið krefst sérhæfðrar æfingaaðstöðu og faglegrar kennslu. Í þriðja lagi hefur listdansskólinn sinnt þeim einstaklingum sem hafa getað og viljað gera þetta "auka" sem til þarf til að leggja listdansinn fyrir sig. Dansnám í skólakerfinu er annars eðlis því þar er það hluti af þroskaferli barnanna og ætlað til að efla líkama þeirra og sál. Listdansskóli Íslands hefur hinsvegar sinnt þeim sem vilja sérhæfa sig á þessu sviði og jafnvel gera listdansinn að ævistarfi. Á því er klárlega mikill munur. Í fjórða lagi er samfella í þessu námi eins og öðru listnámi mikilvæg. Þessi samfella hefur verið til staðar vegna listdansskólans en hefur nú verið sett í uppnám.

Óljós framtíðarsýn
Við eigum frábæra listamenn á sviði listdansins hér á landi. Listdansskóli Íslands hefur verið lykilstofnun í því að mennta þessa listamenn. Nú í haust var síðan tekið upp nám í listdansi á háskólastigi í LHÍ sem er alveg frábær viðbót. Þessi ákvörðun menntamálaráðherra um að kippa fótunum undan grunnnáminu er í því ljósi með öllu óskiljanleg. Ekkert er eilíft og það má vel vera að við einhverjar kringumstæður væri eðlilegt að leggja Listdansskólann niður. En þá er lykilatriði að fyrirliggji hvað eigi að koma í staðinn. Framtíðarsýn ráðherrans er afar óljós ef hún þá er einhver. Ég vona að hún sjái að sér og dragi þessa ákvörðun tilbaka kalli á fagaðila og fari betur yfir málið með það fyrir augum að treysta grunn námsins til framtíðar.

Ég mun taka þetta mál upp þegar þing kemur saman og kalla eftir ástæðum ráðherra fyrir þessari ákvörðun og framtíðarsýn ráðherra á fyrirkomulag listnáms. Svörin hingað til hafa verið heldur haldlítil og einkennst af fullkomnu skilningsleysi gagnvart þessu námi.

Bæta verður stöðu listmenntunar
Staða listmenntunar á Íslandi er ekki nógu góð. Það er engin stefna í gangi af hálfu hins opinbera. Gott dæmi um þetta er tónlistarnámið sem nú er orðið bitbein milli ríkis og sveitarfélaga. Við eigum að draga af því lærdóm en ekki senda fleiri listnámsgreinar inná þá braut. Menntamálaráðherra verður að skoða listnámið heildrænt og marka faglega stefnu til framtíðar í stað stefnu einfalds niðurskurðar og þægilegri stjórnsýslu.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum á mánudaginn: "Opinn fundur haldinn 5. september í húsnæði Listaháskóla Íslands, mótmælir harðlega einhliða ákvörðun menntamálaráðherra um lokun Listdansskóla Íslands og krefst þess að lokun skólans verði frestað þar til framtíð listdansnáms á grunn- og framhaldsskólastigi hefur verið tryggð í samráði við fagmenn í greininni."

sunnudagur, september 04, 2005

Aðeins um Steinunni Valdísi og Gísla Martein

Skrýtið hvernig öll umræðan um borgarmálin er farin að snúast um Gísla Martein. Það er auðvitað frábært fyrir hann - held ég a.m.k. Aðrir frambjóðendur þurfa hinsvegar að lifa við það að geta ekki komið í sjónvarps- eða útvarpsþætti nú eða blaðaviðtöl nema sitja uppi með það þurfa að vera svara spurningum um framboð Gísla og hafa á honum einhverja sérstaka skoðun umfram aðra frambjóðendur. Það finnst mér skrýtin staða fyrir þetta ágæta fólk sem er búið að lifa og hrærast í borgarmálunum yfir áratug í sumum tilfellum. Gísli Marteinn hefur ekki setið í borgarstjórn nema sem varamaður og því ekki mikið vitað um hans áherslur og þetta ágæta fólk líklega lítið starfað með honum. Hvernig geta þessir reynsluboltar haft skoðun á manni sem er nánast óskrifað blað í borgarmálaumræðunni?

Ég hef verið afar ósátt við það hvernig vegið er að Steinunni Valdísi borgarstjóra í fjölmiðlum og annarsstaðar undanfarið. Hún hefur fengið afar ósanngjarna meðferð og fólk virðist búið að gleyma því að hún er ein þeirra sem hefur starfað lengst innan Reykjavíkurlistans eða frá því að hann tók við borginni 1994. Hún á því skilið að rætt sé um árangur hennar sem borgarfulltrúi í öll þessi ár. Þau góðu verk sem R-listinn kom til leiðar eru ekki síst Steinunni að þakka - þessu mega menn ekki gleyma í öllu atinu við að koma sjálfum sér að. Mér finnst hún einnig hafa staðið sig vel sem borgarstjóri og finnst asnaleg og ósanngjörn sú umræða að hún hafi verið einhver millileikur. Staðreyndin er sú að henni var treyst innan Rvk - lista samstarfsins til að sitja í stóli borgarstjóra vegna reynslu sinnar og þekkingar og án efa vegna þeirrar tryggu persónu sem hún hefur að geyma. Gat ekki látið hjá líða að segja um þetta nokkur orð því af þeim sem nú sækja á fyrstu sætin hjá öllum flokkum sem bjóða munu fram í borginni hefur Steinunn líklega komið hvað mestum umbótum í framkvæmd fyrir borgarbúa.

Í lokin verð ég að nefna það að ég skil ekki alla þessa umræðu um aldur Gísla Marteins. Mér finnst hann ekkert ungur enda er hann nokkrum árum eldri en ég. Giftur og ber þá miklu ábyrgð að ala upp tvö börn. Ég vona að fólk hætti að velta sér uppúr aldri hans og fari að kalla eftir svörum við því hvað hann ætli sér að gera fyrir borgarbúa. Það er það sem skiptir máli.

Bling Bling sigur í KUBB

Tók þátt í Íslandsmótinu í KUBB sem haldið var í Borgarnesi í gær (laugardag). Fengum frábært veður, sól og blíðu allan tímann. Um 20 lið mættu til leiks og var mikið fjör. Ég hef áður tekið þátt í svona mótum en þetta mót var af þeim alveg einstakt því í fyrsta sinn voru veittar viðurkenningar fyrir flottustu búningana, skemmtilegasta liðið, glyðrur mótsins, mesta 101 liðið, lang óheppnasta liðið og skemmtilegasta liðið. Flest liðin mættu því í afar metnaðarfullum búningum og var gaman að horfa yfir hópinn sem var ýmist klæddur eins og víkingar, glimmerstráð samkvæmispör, rapparar, póló-snyrtimenni og fleira skemmtilegt. Liðið mitt "Í rauðum sokkum" var eina hreina kvennaliðið í keppninni og vorum við klæddar í anda kvenna í frönsku andspyrnuhreyfingunni. Ég verð að segja að þessi nýjung setti skemmtilegan brag á keppnina í ár. Einnig var brugðið á leik og víkingarnir í hópnum settu margt skemmtilegt á svið fyrir okkur.

Liðið Bling Bling vann mótið í ár með miklum glæsibrag eftir spennandi úrslitarimmu við KOMATSU sem þau hjónin Hreinn Hreinsson og Halldóra Gunnarsdóttir skipa. Mínu liði gekk svona lala við komumst ekki uppúr riðli en áttum engu að síður góðan endasprett þegar við sigruðum Hringhorna sem urðu í fjórða sæti í keppninni. Sú viðureign við þá félaga endaði í bráðabana sem við sigruðum. Við fengum þó viðurkenningu sem glyðrur mótsins þetta árið, komum því ekki heim alveg beygðar. Við Jóhanna Þórdórs og Hólmfríður Sveins sem voru með mér í liði komum hinsvegar sterkar til keppni að ári og stefnum á sigur á mótinu!


KUBB er góð fjölskylduskemmtun og var því mikið af börnum með okkur í Borgarnesi í gær sem stóðu sig eins og hetjur í nokkrum liðanna. Júlíus ákvað að horfa á í þetta skiptið en heillaðist svona líka af spilinu að hann ætlar að hefja stífar æfingar og taka þátt á næsta ári! Nánari upplýsingar um KUBB er að finna á slóðinni www.folk.is/kubb

Horfðum á Stelpurnar á Stöð 2 eftir að við komum heim í gærkvöldi. Mér fannst þetta bráðskemmtilegt og hlakka til að sjá næsta þátt. Júlíus skildi nú ekki endilega alla brandarana en hann hló sig máttlausan þegar Brynhildur Guðjóns birtist á skjánum sem hin ofurákveðna breska húsmóðir. Enda listavel gert hjá henni.